Chelsea er ekki í viðræðum um að fá franska markvörðinn Mike Maignan á frjálsri sölu frá AC Milan á næsta ári en þetta segir Fabrizio Romano á X.
Lundúnafélagið hafði verulegan áhuga á að fá Maignan í sumar og reyndi að fá hann, en var ekki reiðubúið að greiða meira en 15 milljónir evra og fór það svo að hann hélt kyrru fyrir hjá Milan.
Samningur Frakkans rennur út á næsta ári og hafa erlendir fjölmiðlar greint frá því að Chelsea sé að vinna í því að fá hann á frjálsri sölu en Romano segir þetta ekki rétt.
Hann segir Chelsea ekki í viðræðum við föruneyti kappans og að það sjái Robert Sanchez sem aðalmarkvörð næstu ára.
Einnig hefur Chelsea miklar mætur á belgíska markverðinum Mike Penders sem er á láni hjá franska félaginu Strasbourg. Hann er aðeins 20 ára gamall en Chelsea keypti hann frá Genk í sumarglugganum.
Athugasemdir

