Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
banner
   sun 10. desember 2023 17:20
Ívan Guðjón Baldursson
Óttar Magnús skoraði sitt fyrsta mark fyrir Vis Pesaro
Mynd: Oakland Roots
Mynd: Holstein Kiel
Óttar Magnús Karlsson er búinn að skora sitt fyrsta mark fyrir Vis Pesaro sem leikur í ítölsku C-deildinni. Óttar hefur átt í erfiðleikum með að vinna sér inn sæti í byrjunarliðinu en í dag bjargaði hann stigi gegn ógnarsterku liði Perugia.

Vis Pesaro er í fallbaráttu C-deildarinnar eftir 2-2 jafntefli en liðið stefnir á umspilsbaráttu um sæti í B-deildinni. Óttar og félagar eru aðeins fjórum stigum frá umspilssæti þrátt fyrir að sitja í fallsæti sem stendur.

Óttar kom inn af bekknum í dag og skoraði jöfnunarmarkið aðeins níu mínútum síðar.

Birkir Bjarnason spilaði fyrstu 73 mínúturnar í 1-1 jafntefli Brescia á útivelli gegn Reggiana í B-deildinni. Brescia er sex stigum frá umspilssæti eftir þetta jafntefli, en 35 ára gamall Birkir er búinn að skora tvö mörk í síðustu fjórum leikjum.

Elías Rafn Ólafsson varði þá mark Mafra gegn Academico Viseu í B-deild portúgalska boltans í dag. Elías átti góðan leik og lék stóran þátt í að tryggja Mafra stig á heimavelli.

Gestirnir áttu sex marktilraunir sem hæfðu rammann, en aðeins ein þeirra endaði í netinu þökk sé markvörslum Elíasar. Mafra er um miðja deild, með 18 stig eftir 13 umferðir - 8 stigum frá baráttu um sæti í efstu deild.

Ísak Bergmann Jóhannesson lék að lokum allan leikinn í Íslendingaslag í B-deild þýska boltans, er Fortuna Düsseldorf tók á móti Holstein Kiel í toppbaráttunni.

Gestirnir frá Kiel báru sigur úr býtum og fékk Hólmbert Aron Friðjónsson að spreyta sig á lokakafla leiksins. Kiel deilir toppsæti deildarinnar með St. Pauli eftir þennan sigur, á meðan Dusseldorf situr eftir í fimmta sæti - fimm stigum eftir toppliðunum.

Perugia 2 - 2 Vis Pesaro
1-0 E. Iannoni ('15)
1-1 M. Pucciarelli ('31)
2-1 A. Seghetti ('39)
2-2 Óttar Magnús Karlsson ('65)

Reggiana 1 - 1 Brescia

Mafra 1 - 1 Academico Viseu

Fortuna Dusseldorf 0 - 1 Holstein Kiel

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner