Selfoss er búið að tilkynna að Magdalena Anna Reimus mun leika með félaginu á næstu leiktíð þrátt fyrir fall niður í 2. deild kvenna. Hún gerir eins árs samning við félagið.
Magdalena er fædd 1995 og gekk til liðs við Selfoss 2015 þegar liðið lék í efstu deild kvenna. Hún tók sér pásu frá fótbolta þegar Selfoss féll úr efstu deild í fyrra en sneri aftur fyrir síðustu leiktíð.
Henni tókst ekki að koma í veg fyrir fall úr Lengjudeildinni en Magdalena mun reynast mikilvæg á næsta ári. Hún býr yfir mikilli reynslu og hefur skorað rúmlega 70 mörk í meira en 250 leikjum með Selfossi. Hún var mikilvægur hlekkir í liði Selfoss sem komst í bikarúrslit 2015 og varð svo bikarmeistari 2019.
„Þetta er ungt lið stútfullt af hæfileikum og það er gaman að vera þátttakandi í þessu. Ég vil hjálpa liðinu að komast aftur á þann stað sem það á að vera á. Það er ekki langt síðan við vorum þar og við viljum komast þangað sem fyrst. Það mun taka tíma en liðið og allir í kringum liðið þurfa að sinna sínum hlutverkum vel,” sagði Magdalena við undirskriftina.
Gunnar Borgþórsson, nýráðinn þjálfari meistaraflokks, er mjög ánægður með að halda Magdalenu.
„Ég er ótrúlega ánægður með það að Magdalena taki slaginn með okkur áfram. Hún býr yfir mikilli reynslu sem mun nýtast liðinu og auk þess er hún frábær í fótbolta. Magdalena spilaði með liðinu þegar það var á meðal þeirra bestu og hún mun hjálpa okkur að toga unga leikmenn í þá átt með okkur," sagði hann.
Athugasemdir