
Það er útlit fyrir að það verði fjórir Íslendingar í skólaliði Harvard-háskólans á næsta ári.
Harvard er einn virtasti og besti háskóli í heimi en hann er staðsettur í Massachusetts í Bandaríkjunum.
Harvard er einn virtasti og besti háskóli í heimi en hann er staðsettur í Massachusetts í Bandaríkjunum.
Áður var búið að greina frá því að Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, sóknarmaður Þróttar, sé á leið í skólann seinna á þessu ári og núna hefur skólinn tilkynnt það að Írena Héðinsdóttir Gonzalez, miðjumaður Breiðabliks, verði í nýliðahóp skólaliðsins ásamt Ollu.
Írena er efnilegur miðjumaður, sem er fædd árið 2004. Hún hefur komið við sögu í öllum þremur leikjum Breiðabliks í Bestu deildinni í sumar.
Írena er þá hluti af U19 landsliðinu sem komst á lokakeppni Evrópumótsins á þessu ári. Liðið mun spila á mótinu í Belgíu í sumar.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir og Hildur Þóra Hákonardóttir, liðsfélagar Írenu hjá Blikum, hafa spilað með Harvard og stundað nám við skólann síðustu tvö árin. Það er útlit fyrir að stór hluti liðsins á næsta tímabili verði Íslendingar sem er virkilega skemmtilegt.
Athugasemdir