
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðsins, ræddi við fjölmiðla fyrir æfingu landsliðsins í Crewe í dag. Í gær gerðið liðið 1-1 jafntefli við Belgíu í fyrsta leik sínum í mótinu og framundan er leikur gegn Ítalíu á fimmtudag.
Lestu um leikinn: Belgía 1 - 1 Ísland
„Við hefðum náttúrulega mátt skora, fengum möguleika á því og tækifæri til að búa til fleiri dauðafæri. Heilt yfir, úti á vellinum fram að þriðja þriðjungi, var ég mjög ánægður með liðið. Við þurfum aðeins að fínstilla ákveðna hluti í kringum teiginn og ef við gerum það þá erum við til alls líkleg á fimmtudag," sagði Steini.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir klikkaði á vítaspyrnu í fyrri hálfleik í gær. Var eitthvað sérstakt sem þú sagði við hana í hálfleik?
„Ég hrósaði henni bara fyrir frábæran fyrri hálfleik. „Þú varst frábær og stóðst þig vel, ég er ánægður með þig og stoltur af þér.""
„Auðvitað lifa senterar á því að skora mörk og þeim líður alltaf best þegar þeir skora. Það var frábært að sjá hana skora og frábært fyrir hana . Um leið er það gott fyrir okkur."
Athugasemdir