Grealish samþykkir að fara til Everton - Guehi er til sölu fyrir rétt verð - Milan í viðræðum um Höjlund
   mán 11. ágúst 2025 21:24
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Laglegir endurkomusigrar í Vesturbæ og Hafnarfirði
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það fóru tveir leikir fram í Bestu deild karla í kvöld þar sem KR og FH áttu heimaleiki gegn Aftureldingu og ÍA í fallbaráttunni.

KR 2 - 1 Afturelding
0-1 Hrannar Snær Magnússon ('10)
1-1 Aron Sigurðarson ('54, víti)
2-1 Eiður Gauti Sæbjörnsson ('65)

Lestu um leikinn: KR 2 - 1 Afturelding

Í Vesturbænum tók Afturelding forystuna snemma leiks þegar Hrannar Snær Magnússon skallaði hornspyrnu frá Oliver Sigurjónssyni í netið.

Heimamenn í liði KR voru talsvert sterkari aðilinn á vellinum en þeim tókst ekki að jafna metin fyrr en í síðari hálfleik þrátt fyrir urmul færa. Mosfellingar voru stálheppnir að fara inn í leikhlé með forystu.

Yfirburðir KR héldu áfram í síðari hálfleik og jafnaði Aron Sigurðarson metin á 54. mínútu með marki úr vítaspyrnu.

Eiður Gauti Sæbjörnsson tók svo forystuna fyrir KR með glæsilegum flugskalla ellefu mínútum síðar. Gestirnir lifnuðu aðeins við í kjölfarið en tókst þó ekki að skapa mikla ógn svo lokatölur urðu 2-1 fyrir KR. Verðskuldaður sigur sem hefði hæglega getað verið stærri.

KR jafnar Aftureldingu á stigum með þessum sigri. Liðin eru áfram í harðri baráttu með 20 stig eftir 18 umferðir.

FH 3 - 2 ÍA
0-1 Haukur Andri Haraldsson ('5)
0-2 Jón Gísli Eyland Gíslason ('22)
1-2 Ísak Óli Ólafsson ('42)
1-2 Kjartan Kári Halldórsson ('45, misnotað víti)
1-2 Björn Daníel Sverrisson ('53, misnotað víti)
2-2 Sigurður Bjartur Hallsson ('59)
3-2 Sigurður Bjartur Hallsson ('70)

Lestu um leikinn: FH 3 - 2 ÍA

Í Hafnarfirði komust Skagamenn í tveggja marka forystu snemma leiks. Haukur Andri Haraldsson skoraði strax eftir skyndisókn á fimmtu mínútu og tvöfaldaði Jón Gísli Eyland Gíslason forystuna rétt rúmum stundarfjórðungi síðar.

Bæði lið komust nálægt því að bæta við mörkum í gríðarlega skemmtilegum slag og dró til tíðinda á 39. mínútu þegar Heimir Guðjónsson og Dean Martin fengu báðir að líta beint rautt spjald eftir átök á hliðarlínunni.

   11.08.2025 20:11
Heimir Guðjóns og Dean Martin fóru „haus í haus“ og fengu báðir rautt


Ísak Óli Ólafsson minnkaði muninn fyrir heimamenn skömmu síðar eftir aukaspyrnu frá Kjartani Kára Halldórssyni. Hann skoraði afar skoplegt mark þar sem honum tókst einhvern veginn að sparka boltanum í andlitið á sér og þaðan hrökk hann í netið.

FH-ingar fengu dæmda vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks en Kjartani Kára brást bogalistin. Hann tók flotta spyrnu en Árni Marinó Einarsson varði meistaralega svo staðan var 1-2 fyrir ÍA í leikhlé.

FH-ingar mættu grimmir út í síðari hálfleikinn og fengu gott færi áður en önnur vítaspyrna var dæmd. Í þetta sinn steig Björn Daníel Sverrisson á punktinn en klúðraði klaufalega þegar hann reyndi að vippa boltanum í mitt markið. Árni Marinó stóð kyrr og sá við honum og varði þar með aðra vítaspyrnuna sína í leiknum.

Heimamenn voru þó hvergi hættir og jöfnuðu metin skömmu síðar. Sigurður Bjartur Hallsson gerði frábærlega að komast í gegnum vörn ÍA og lyfta boltanum svo yfir Árna til að klára fagmannlega. Staðan orðin 2-2. Erik Tobias Sandberg átti sérstaklega afleitan leik í varnarlínu Skagamanna.

Það var mikil spenna á lokakaflanum þar sem Gísli Laxdal Unnarsson fékk dauðafæri fyrir Skagamenn áður en Sigurður Bjartur skoraði aftur til að taka forystuna. Frábær móttaka og afgreiðsla hjá Sigurði eftir langan bolta upp völlinn.

Staðan var þá orðin 3-2 og tókst FH-ingum að halda forystunni til leiksloka og landa dýrmætum sigri.

FH er með 22 stig eftir 18 umferðir - tveimur stigum fyrir ofan fallsvæðið. ÍA vermir áfram botnsæti deildarinnar með 16 stig. Skagamenn eru fjórum stigum frá öruggu sæti.
Athugasemdir
banner