Sóknarleikmaðurinn öflugi Omari Hutchinson vill fara aftur í ensku úrvalsdeildina. Sky Sports greinir frá þessu.
Hutchinson, sem verður 22 ára í október, hefur verið mikilvægur hlekkur í liði Ipswich Town síðustu tvö árin og er búinn að vekja mikla athygli á sér.
Ipswich vill ekki selja hann þar sem liðið stefnir beint aftur upp í ensku úrvalsdeildina eftir fall niður í Championship á síðustu leiktíð.
Nottingham Forest og Brentford lögðu bæði fram tilboð í sumar en þeim var hafnað. Tilboðin hljóðuðu upp á 35 milljónir punda sem hefði verið nóg til að virkja riftunarákvæði í samningi Hutchinson ef summan hefði öll verið greidd í einu lagi.
Brentford og Forest reyndu að semja við Ipswich um greiðsludreifingu en tókst ekki. Riftunarákvæðið féll úr gildi um miðjan júlí.
Hutchinson er uppalinn hjá Chelsea og Arsenal og er með 10 leiki að baki fyrir U21 landslið Englands.
Enskir fjölmiðlar segja að Hutchinson sé spenntur fyrir að reyna aftur fyrir sér í ensku úrvalsdeildinni. Það kynti undir orðrómana þegar hann var ekki í leikmannahópi Ipswich fyrir opnunarleik Championship deildarinnar á föstudaginn vegna veikinda.
07.08.2025 08:00
Ipswich heldur fast í Hutchinson
Athugasemdir