mán 11. október 2021 07:30
Brynjar Ingi Erluson
Telma Ívars: Stærsti leikur sem ég hef spilað
Telma Ívarsdóttir í leiknum gegn PSG
Telma Ívarsdóttir í leiknum gegn PSG
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Telma Ívarsdóttir spilaði stærsta leik sinn á ferlinum er Breiðablik mætti Paris Saint-Germain í Meistaradeild Evrópu á föstudag en hún fór yfir þann leik og ræddi leikinn gegn Real Madrid í viðtali við Blikar TV í gær.

Telma gekk til liðs við Breiðablik árið 2016. Hún hefur síðustu ár spilað á láni hjá Grindavík, Haukum, Augnabliki og FH áður en hún fékk tækifærið með Blikum í sumar.

Hún spilaði 17 leiki í Pepsi Max-deildinni í sumar er Bllikar höfnuðu í 2. sæti og var þá kölluð inn í íslenska landsliðshópinn á dögunum.

Telma fór yfir leikinn gegn PSG og ræddi þá verkefnið gegn Real Madrid.

„Frábært að fá að spila þann leik. Þetta er stærsti leikur sem ég hef spilað, það var smá stress, en mér fannst við virkilega flottar í þessum leik og tilfinning eftir leik sérstaklega, það voru allir að leggja sitt 120 prósent fram og við reyndum okkar allra besta og stóðum okkur vel miðað við úrslit," sagði Telma við Blikar TV.

„Ég pældi ekkert mikið í því í momentinu en eftir á líður manni vel að standa sig vel á móti svona liðið. Þetta er auka boost fyrir sjálfstraustið í næstu leiki og komandi verkefni. Það hjálpaði mér gríðarlega mikið."

Blikaliðið er búið að fara vel yfir Real Madrid. Liðið vann stórlið Manchester City á leið sinni í riðlakeppnina og þá vannst 1-0 sigur á Kharkiv í fyrstu umferð riðilsins.

„Bara mjög vel. Við erum búnar að horfa á nokkrar klippur og sjá leiki með þeim. Þær unnu Manchester City til að komast á þann stað sem þær eru komnar á. Maður veit að þær geta helling og þær unnu síðasta leik sinn í Úkraínu og við erum jafn peppaðar í það verkefni og gegn PSG og ætlum að gera okkar besta að ná stig í Madríd."

Telma stundar nám á Íslandi en Úlfar Hinriksson, yfirmaður afrekssviðs hjá Blikum, er búinn að græja frí fyrir hana þessa daga sem hún er á Spáni.

„Ég er búin að fá frí í skólanum. Úlli sér um að sækja leyfi fyrir mig út um allt," sagði hún í lokin.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner