Heimsmeistaralið Argentínu gerði 1-1 jafntefli við Venesúela í undankeppni HM í nótt. Nýliði í brasilíska landsliðinu skoraði þá fyrra mark liðsins í 2-1 sigri á Síle.
Varnarmaðurinn Nicolas Otamendi skoraði eina mark Argentínu gegn Venesúela.
Rafael Romo, markvörður Venesúela, kýldi aukaspyrnu út í teiginn og á Otamendi sem skoraði.
Salomon Rondon fékk mörg góð færi í liði Venesúela og tókst að nýta eitt þegar hálftími var eftir með góðum skalla. Mörkin urðu ekki fleiri og lokatölur því 1-1.
Þrátt fyrir þetta feilspor er Argentína á toppnum með 19 stig eftir níu leiki en Venesúela í 7. sæti með 11 stig.
Brasilíska landsliðið vann dramatískan 2-1 sigur á Síle.
Liðið hafði byrjað undankeppnina illa og aðeins náð í tíu stig úr átta leikjum.
Dorival Junior, þjálfari liðsins, gerði áhugaverða breytingu á byrjunarliði sínu, en hann hafði Endrick, leikmann Real Madrid, á bekknum og ákvað í staðinn að byrja Igor Jesus, sem er á mála hjá Botafogo í heimalandinu.
Igor er ekki beint þekktasta nafnið í hópnum. Hann var valinn í fyrsta sinn í þessum mánuði og nýtti tækifærið með því að skora fyrra mark Brasilíu í leiknum. Hann er 23 ára gamall og áður spilað með Coritiba og Al Shabab í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Varamaðurinn Luiz Henrique gerði síðan sigurmark Brasilíu þegar skammt var til leiksloka. Brasilía kom sér upp í 4. sæti riðilsins með sigrinum.
Bólivía vann þá 1-0 sigur á Kólumbíu á meðan Ekvador og Paragvæ gerðu markalaust jafntefli.
Athugasemdir