Hannes Þór Halldórsson hefur náð samkomulagi við Val um starfslok. Þetta herma heimildir Fótbolta.net. Hannes tilkynnti liðsfélögum sínum þetta í morgun. Hannes átti eitt ár eftir af samningi sínum við Val en honum er nú frjálst að halda annað.
Fótbolti.net heyrði í formanni Vals, Berki Edvardssyni, og spurði hann út í Hannes. Hann sagði að engra tíðinda varðandi Hannes væri að vænta á næstunni.
Fótbolti.net heyrði í formanni Vals, Berki Edvardssyni, og spurði hann út í Hannes. Hann sagði að engra tíðinda varðandi Hannes væri að vænta á næstunni.
Mikið hefur gustað um stöðu Hannesar hjá Val eftir síðasta tímabil og var strax eftir lokaumferðina tilkynnt að markvörðurinn Guy Smit væri genginn í raðir félagsins.
Hannes er 37 ára og var aðalmarkvörður landsliðsins um árabil. Hann gekk í raðir Vals árið 2019 eftir veru hjá Qarabag í Aserbaísjan.
„Nei, nei, ég er það nú ekkert [of gamall]. Ég á eitt ár eftir af samningi mínum. Ég átti fínt tímabil í sumar og það er ekkert sem segir að ég sé 37 ára, það er bara vegabréfið mitt. Auðvitað er þetta ekkert skemmtileg staða sem er komin upp en það er verið að vinna í að leysa hana núna. Ég er búinn að eiga ágætis samtal við félagið og nú erum við í þeim farvegi á jákvæðum nótum. Við sjáum svo hvernig þetta fer," sagði Hannes í útvarpsviðtali á Rás 1 á dögunum.
„Ég held að hann sé í drottningarviðtölum um allan bæ núna og upptekinn við það. Vonandi verður hann klár þann 10. nóvember þegar við byrjum að æfa," sagði formaður Vals, Börkur Edvardsson, í viðtali við Fótbolta.net í síðustu viku þegar hann var spurður út í stöðuna á Hannesi. Börkur vitnaði þar í bíómyndina Leynilöggu (sem fréttamaður mælir svo sannarlega með) sem er kominn í kvikmyndahús og Hannes leikstýrir.
Hannes er uppalinn í Leikni en hefur einnig leikið með Aftureldingu, Stjörnunni, Fram og KR á sínum ferli á Íslandi.
Athugasemdir