Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   sun 12. júlí 2020 12:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Eyjó Héðins: Tækluðum þetta vel og það eru engar afsakanir
Eyjólfur Héðinsson, leikmaður Stjörnunnar.
Eyjólfur Héðinsson, leikmaður Stjörnunnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan snýr aftur í Pepsi Max-deildina á mánudagskvöld þegar liðið heimsækir Val. Garðbæingar komu úr tveggja vikna sóttkví á fimmtudaginn síðasta og gátu þá byrjað að æfa saman sem lið á nýjan leik.

Eftir að hafa unnið tvo fyrstu leiki sína í deildinni kom í ljós að einn úr leikmannahópnum væri með kórónaveiruna. Sá aðili hafði farið í umtalaða útskriftarveislu.

Eyjólfur Héðinsson, leikmaður Stjörnunnar, fór lauslega yfir atburðarásina í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977.

„Það var hringt í okkur alla og sagt að við værum mjög líklega á leið í sóttkví. Það var svo staðfest nokkrum klukkustundum seinna og við fórum í sóttkví á föstudegi og kláruðum hana núna rétt fyrir þessa helgi sem er núna í gangi," segir Eyjólfur.

Hvernig var tilfinningin að fá þessar fréttir?

„Það var smá sjokk. Við byrjuðum þetta mót mjög vel og vorum í góðum gír. Þetta voru tvær vikur sem við vorum teknir út úr öllu."

Einum velli var lokað fyrir okkur
Stjörnumenn hugsuðu í lausnum og æfðu eins faglega og mögulegt var.

„Þetta var ekki einangrun, við vorum í sóttkví og máttum fara í göngutúra og hjólatúra. Við máttum bara ekki umgangast aðra. Þetta er ekki gott þegar þú ert íþróttamaður í liðsíþrótt en við náðum að tækla þetta ágætlega."

„Við búum vel í Garðabænum og það eru margir vellir á svæðinu. Einum velli var lokað fyrir okkur. Við æfðum ekki saman sem lið og máttum ekki umgangast eða nota klefa. Það æfðu tveir og tveir í einu á sitthvorum vallarhelmingnum með bolta, keilur, batta og mörk. Þeir máttu ekki sparka sín á milli svo það var bara verið að rekja í gegnum keilur og skjóta á tóm mörk."

„Við erum með fjölmennan æfingahóp. Fyrstu menn æfðu klukkan sjö á morgnana og svo þurftu þeir að sótthreinsa allt draslið. Svo mættu næstu klukkan átta og ég held að síðustu hafi verið að klára um klukkan sex um kvöldið."

Eyjólfur segir að það hafi gert mikið fyrir andlega líðan að geta tekið eina fótboltaæfingu á dag þó það hafi ekki verið með liðsfélögunum.

Engin sjálfsvorkunn í okkur
Það er mikið leikjaálag framundan hjá Stjörnunni og þrátt fyrir að liðið hafi ekki getað æft með eðlilegum hætti, ólíkt öðrum liðum Pepsi Max-deildarinnar, segir Eyjólfur að menn ætli ekki að leita í afsakanir.

„Það er gír í mönnum. Við höfum virkjað rosalega marga leikmenn og það vilja allir taka þátt, við erum með stóran leikmannahóp. Það hefði örugglega verið erfiðara að fara í þessa sóttkví ef við hefðum byrjað illa. Það er engin sjálfsvorkunn í okkur og ekkert kvartað og kveinað, við bara tækluðum þetta vel og æfðum vel. Við mætum Val á mánudaginn á jafnréttisgrundvelli og það eru engar afsakanir," segir Eyjólfur.

Leikmenn Stjörnunnar voru duglegir að horfa á önnur lið Pepsi Max-deildarinnar spila á meðan sóttkvíin stóð yfir.

„Það hafa margir leikir verið sýndir og ég held að ég hafi aldrei horft eins mikið á íslenskan fótbolta og núna. Við höfum skoðað hin liðin rosalega vel," segir Eyjólfur en viðtalið má heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan eða í gegnum Podcast forrit.
Stjarnan snýr aftur í Pepsi Max - Eyjó Héðins kominn úr sóttkví
Athugasemdir
banner
banner
banner