Man Utd gæti gert tilboð í Berge - Arsenal hefur enn áhuga á Osimhen - Tottenham hefur áhuga á Solanke
   fös 12. júlí 2024 23:55
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Jason sá Brothers Grimsby - „Voru mjög sannfærandi”
Í KR litunum, en annars er treyjan flott.
Í KR litunum, en annars er treyjan flott.
Mynd: Grimsby
Grimsby auglýsti varabúninga sína í dag og var Jason settur í módelstörf.
Grimsby auglýsti varabúninga sína í dag og var Jason settur í módelstörf.
Mynd: Grimsby
Frábær mynd.
Frábær mynd.
Mynd: Grimsby Brothers
Kom til Breiaðbliks frá uppeldisfélaginu Aftureldingu.
Kom til Breiaðbliks frá uppeldisfélaginu Aftureldingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lék sinn fyrsta landsleik sumarið 2022.
Lék sinn fyrsta landsleik sumarið 2022.
Mynd: Getty Images
Jason skoraði 26 mörk í deildinni fyrir Breiðablik og sex mörk í Evrópuleikjum.
Jason skoraði 26 mörk í deildinni fyrir Breiðablik og sex mörk í Evrópuleikjum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Var í þrjú og hálft tímabil hjá Breiðabliki og eignaðist góða vini.
Var í þrjú og hálft tímabil hjá Breiðabliki og eignaðist góða vini.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Blikar komust í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.
Blikar komust í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Bjarki Már Ólafsson er umboðsmaður Jasonar.
Bjarki Már Ólafsson er umboðsmaður Jasonar.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Íslandsmeistari árið 2022.
Íslandsmeistari árið 2022.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jason Daði Svanþórsson skrifaði undir tveggja ára samning við Grimsby í vikunni. Enska félagið kaupir hann frá Breiðabliki þar sem hann átti þrjá mánuði eftir af samningi. Jason er 24 ára og hefur verið einn besti leikmaður Bestu deildarinnar undanfarin ár.

Grimsby spilar í ensku D-deildinni, liðið var ekki langt frá því að falla niður í utandeildina í vor en hélt sæti sínu í deildinni. Fótbolti.net ræddi við Mosfellinginn Jason Daða í dag.

„Treyjan lítur vel út, svolítið líkt KR treyjunni, en annars lítur hún mjög vel út," sagði Jason Daði og hló. Hann var á heimavelli Grimsby að ná í pöntun af treyjum fyrir fjölskyldu sína. En að aðdragandanum, hvenær kom áhugi Grimsby fyrst upp?

„Það er svolítið síðan, man ekki nákvæma dagsetningu. Ég fór á fund með þeim, var að renna út á samningi og félög máttu því ræða við mig. Fundurinn var rosalega flottur hjá þeim, voru mjög sannfærandi í öllu; hvernig þeir ætluðu að bæta mig sem leikmann, hvernig liðið ætlaði að spila og allt slíkt. Þá vaknaði strax meiri áhugi af því þú vilt fara í umhverfi þar sem þú getur orðið betri."

Þjálfari liðsins var á Íslandi um mánaðamótin maí/júní. Hann sá Jason skora gegn Víkingi.

„Ég reyndar hitti hann ekki þá, hann kom bara og horfði á leikinn gegn Víkingi. Við vorum búnir að taka einn fund fyrir það, þá sagði hann mér að hann ætlaði að koma á leikinn og ég vissi af honum í stúkunni."

Hvað vissi Jason um Grimsby áður en hann vissi af áhuganum?

„Ég hef horft á The Brothers Grimsby myndina, það er svona það eina sem ég vissi um Grimsby. Núna er maður aðeins búinn að kynnast þessu, fá kynningu á félaginu og allt slíkt. Frábær mynd engu að síður."

Var á báðum áttum en gaf Grimsby séns
Grimsby er í ensku D-deildinni. Jason viðurkennir að hann var hissa þegar hann heyrði af áhuga félagsins.

„Það kom mér alveg svolítið á óvart þegar Bjarki umboðsmaður hringdi í mig og sagði mér að Grimsby Town hefði mikinn áhuga á að fá mig. Ég vissi ekki alveg með það, en við gáfum því séns, fórum á fund. Maður þarf alltaf að hlusta á alla sem hafa áhuga og þeir komu svona hrikalega vel út."

„Ég get ekki beðið eftir því að byrja spila fyrir liðið. Ég er búinn að hitta einhverja stuðningsmenn hérna og þeir eru allir geggjaðir. Það er mikil stemning í stuðningsfólkinu í kringum Grimsby, smá eins og fólkið lifir fyrir klúbbinn og ég er bara illa peppaður."


Alltaf langað að spila á Englandi
Jason hefur fylgst með ensku fótbolta, en kannski eins og flestir fylgst betur með úrvalsdeildinni en D-deildinni.

„Auðvitað hefur mig alltaf langað að spila á Englandi. Maður hefur horft á úrvalsdeildina í langan tíma, minna horft á League Two. Þegar það kemur upp þá langar mann auðvitað að skoða það. England er að mínu mati stærsta landið til að spila í og vonandi gengur vel hérna."

Hefði annars væntanlega farið annað
Stimpillinn sem neðri deildirnar á Englandi hefur er sá að liðin spili boltanum hátt og langt, mikil barátta og menn sparkaðir niður.

„Það var mín fyrsta hugsun, hvort þetta væri fótboltinn sem hentaði mér. Ég og Bjarki fórum vel yfir það. Svo sýndu þeir á fundinum hvernig þeir vilja spila fótbolta, þetta er ekki bara hátt og langt. Í því myndu mínir kostir ekki ná að skína. Ef þeir væru í svoleiðis bolta þá hefði ég væntanlega leitað í eitthvað annað."

„Ég hef horft á einhverja leiki frá því í fyrra. Þetta er ekki alveg sá fótbolti og ég hélt og ég vona að við náum að spila góðan fótbolta og vinna leiki."


Jason er mjög góður í því að fá boltann í lappir og ráðast svo á andstæðinga sína, gerir þeim oftar en ekki lífið leitt með snerpu sinni.

Vonandi opnast einhverjir gluggar
Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, var opinn með það að félagaskipti Jasonar til Grimsby hefðu komið sér aðeins á óvart; hann sæi Jason geta spilað á hærra getustigi.

„Ég er náttúrulega 24 ára og hef ekki ennþá tekið skref út. Það er kannski erfitt fyrir mig að ætlast til þess að fara í topplið einhvers staðar í efstu deild. Ég hef líka verið eitthvað meiddur, sem spilar inn í. Það er vonandi, ef það gengur vel, að þetta opni einhverja glugga. Ég verð að einbeita mér að því að standa mig vel hér og þá kannski gerist eitthvað stærra í framtíðinni."

Meiri möguleiki að komast út
Jason var í viðræðum við Breiðablik um nýjan samning, en það er kannski ekki hægt að segja að hann hafi verið nálægt því að framlengja.

„Maður er auðvitað ofboðslega þakklátur fyrir allt sem Breiðablik hefur gert fyrir mann. Félagið er búið að gera nánast allt til þess að ég bæti sem leikmaður og manneskja. Frábær klúbbur í alla staði. Auðvitað hugsaði ég mig vel um en ég taldi best fyrir mig að vera samningslaus til að opna frekar á möguleikann að einhver félög myndu vilja fá mig."

Orðaður við AGF og Sogndal
Áhugi var á Jasoni frá öðrum félögum á Íslandi. Ef það hefði ekki komið neinn áhugi erlendis frá þá hefði hann verið áfram í Breiðabliki. En hefur hann áður verið nálægt því að fara út?

„Já, ég var mjög spenntur fyrir AGF um árið, en þá þurfti ég að fara í aðgerð og þá varð ekkert úr því skrefi. Það er svona það næsta sem ég hef verið því að fara út. Maður hefur alltaf einhverja tilfinningu hvort það sé rétt eða rangt að taka skrefið. Í þetta skiptið fann ég þá tilfinningu að ég var orðinn tilbúinn og ógeðslega spenntur að prófa eitthvað nýtt."

Stórkostlegur árangur og mikið þakklæti
Jason var í þrjú og hálft tímabil hjá Breiðabliki. „Þetta var geðveikur tími, ógeðslega skemmtilegur. Ég eignaðist ofboðslega marga góða vini sem skiptir rosalega miklu máli. Við spiluðum frábærlega '21, vorum óheppnir að vinna ekki titilinn þá - vel gert hjá Víkingi. Við vorum svo besta liðið '22 og bæði árin fórum við í þriðju umferð í Evrópu. Á síðasta tímabili gerðum við ekki vel í deild miðað við okkar mælikvarða sem er að keppast um alla bikara. Við gerðum það ekki í fyrra en náðum á móti frábærum árangri í Evrópu. Að ná að komast í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar er geðveikur árangur, fyrsta íslenska liðið til þess."

„Þetta var mjög lærdómsríkur tími. Ég var í kringum mikið af fólki sem er frábært og maður reynir að þjálfa af því; sama hvort það séu leikmenn, þjálfarar eða fólk í kringum fólkið,"
segir Jason sem nefndi þær Særúnu og Ásdísi sjúkraþjálfara sérstaklega. „Ég er svo þakklátur fyrir þennan tíma."

Lagði mikið á sig en fékk líka mikla hjálp
Jason tók skrefið upp í efstu deild fyrir tímabilið 2021. Hann var fljótur að stimpla sig inn í efstu deild.

„Ég hafði alltaf trú á því að ég gæti spilað í efstu deild. Ég held það hafi hjálpað mér rosalega hvað allir voru tilbúnir að hjálpa mér að aðlagast, bæði leikmenn, þjálfarar og aðrir í kringum liðið. Ég var fljótur að komast inn í hlutina. Ég lagði helling af vinnu á mig í aukaæfingar, gerði allt þetta extra. Ég spilaði með frábærum leikmönnum og þeir hjálpuðu mér mjög mikið."

Væri til í að spila alltaf eins og Blikar '21
Tímabilið 2021 spilaði Breiðablik mjög sóknarsinnaðan fótbolta, stíf pressa og sennilega skemmtilegasti fótbolti sem fréttaritari hefur séð spilaðan á Íslandi. Jason er á sama máli.

„Ég dýrka þennan leikstíl, elska hann. Ef ég mætti velja þá myndi ég alltaf spila þann leikstíl."

Fulla trú á að Blikar fari áfram
Breiðablik er 2-3 undir gegn Tikves í forkeppni Sambandsdeildarinnar eftir leik liðann í gær. Fer Breiðablik áfram úr einvíginu?

„Ég held það. Það er rosalega auðvelt að horfa á sjónvarpinu og skilja ekkert hvað er í gangi. En það er mikið erfiðara að spila þessa Evrópuleiki, hvað þá á útivelli. Það er ógeðslega heitt, einhvern veginn öðruvísi stemning að spila á útivelli en ég hef fulla trú á að við klárum þetta heima. Við, Breiðablik, hefur verið mjög gott á heimavelli í þessum keppnum. Ég hef fulla trú á strákunum."

Flott tölfræði
Jason var spurður hvernig Grimsby hefði fundið hann í sinni leikmannaleit.

„Ég er ekki alveg klár á því, en ef ég að giska þá held ég að þeir hafi séð tölfræði mína í WyScout, þeir hafi séð eitthvað sem þeir hafi leitast eftir og svo farið að skoða mig betur. Síðan settu þeir sig í samband við Bjarka."

Erfitt að fá VISA en tæki fleiri Íslendingum opnum örmum
Jason þarf að fá sérstaka undanþágu til að fá leikheimild með Grimsby. Það er ekki hlaupið að því að fá atvinnuleyfi á Englandi eftir Brexit. Jason segir ólíklegt að félagið reyni að fá fleiri íslenska leikmenn.

„Miðað við hvað það er mikið vesen að fá VISA hérna þá er ég ekki alveg klár á því, en það verður að koma í ljós. Ég myndi taka vel á móti þeim og það er frábært fólk í kringum félagið. Leikmenn, þjálfarateymi og fólkið í kringum félagið hefur hjálpað mér að komast hratt inn í hlutina. Ég er mjög þakklátur fyrir það."

Jason segir að markmið liðsins í vetur verði ekki opinberað, ekki í bili allavega.

Ofboðslega stoltur
Í lok viðtalsins var hann spurður út í landsliðið. Hann hefur spilað fimm leiki fyrir A-landsliðið.

„Ég er ofboðslega stoltur að hafa verið valinn í landsliðið. Frábær tilfinning og sama upp á tengingum þar og þegar ég hef tekið skref á ferlinum; félagaskiptin til Breiðabliks og Grimsby og þegar ég fór upp í meistaraflokk Aftureldingar - allir hafa hjálpast að við að gera alla að betri leikmönnum. Ef öllum líður vel þá spila menn betur. Ég er mjög þakklátur Arnari, Åge og öllum þeim sem hafa valið mig. Vonandi nær maður að spila fleiri leiki í framtíðinni ef maður stendur sig," segir Jason.
Athugasemdir
banner
banner