Man City gæti boðið í Rodrygo - Forest að fá McAtee - Tottenham þreifar á Eze
   þri 12. ágúst 2025 18:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Skorar á stuðningsmenn Vestra að taka generalprufu í næsta leik
Gott gengi hjá Vestra að undanförnu.
Gott gengi hjá Vestra að undanförnu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Heilt yfir hef ég verið mjög sáttur með liðið'
'Heilt yfir hef ég verið mjög sáttur með liðið'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð Smári.
Davíð Smári.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vestri hefur rétt skútuna við eftir erfiðan kafla í aðdraganda undanúrslitaleiksins gegn Fram í Mjólkurbikarnum. Á þeim kafla gekk liðinu erfiðlega að skora mörk og sækja úrslit. Eftir að hafa komist í bikarúrslitin hefur gengið verið gott, sjö stig tekin úr leikjunum þremur.

Fótbolti.net ræddi við Davíð Smára Lamude, þjálfara Vestra, um stöðuna og framhaldið.

„Ég er mjög ánægður með stöðuna á Vestraliðinu í dag. Það kom kafli þar sem gekk bölvanlega að skora, en það eru samt heilt yfir ekki margar frammistöður í sumar sem ég er mjög óánægður með. Við eigum mjög fína frammistöðu á móti Víkingi og Val - heppnin var ekki með okkur þegar við fengum ekki víti á móti Val, hefðum þar getað jafnað leikinn sem mér fannst við verðskulda. Frammistaðan heima gegn Skaganum og úti gegn FH, þær sitja eftir. Svo er það seinni hálfleikurinn á móti Aftureldingu og síðasta korterið á móti KR - eftir að við vorum kýldir í magann. Heilt yfir hef ég verið mjög sáttur með liðið."

„Daði Berg kom til okkar sem lykilmaður, hann strögglar við meiðsli og á þeim kafla erum við í brasi með að finna mann í hans hlutverk. Við prófuðum ýmislegt og eftir komu Ágústs höfum við tekið sjö stig úr þremur leikum. Við horfum upp og áfram í þessu,"
segir Davíð Smári.

Ákall til stuðningsfólks Vestra
Framundan hjá Vestra er leikur gegn Stjörnunni þar sem liðið getur svo gott sem tryggt sér sæti í efri hluta deildarinnar og með sigri farið upp í Evrópusæti. Næsti leikur eftir það er svo sjálfur bikarúrslitaleikurinn gegn Val.

„Ég væri til í að sjá Vestramenn fjölmenna á leikinn gegn Stjörnunni. Mér finnst að allt okkar Vestrafólk eigi að sameinast á móti Stjörnunni, taka þar smá generalprufu fyrir leikinn á móti Val. Það er ekki oft sem lið og stuðningsmenn fá að upplifa svona ævintýri, við þurfum að kunna að meta það á meðan það er. Ég vil sjá allt stuðningsfólk Vestra mæta sem eina heild á Samsungvöllinn, æfa sig í að syngja og tralla og njóta þess að styðja sitt lið í mikilvægum leik á móti Stjörnunni, og undirbúa sig fyrir það sem koma skal á Laugardalsvelli," segir Davíð Smári.

Leikur Stjörnunnar og Vestra hefst klukkan 14:00 næsta sunnudag.
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Valur 18 11 4 3 46 - 24 +22 37
2.    Víkingur R. 18 9 5 4 33 - 24 +9 32
3.    Breiðablik 18 9 5 4 30 - 24 +6 32
4.    Stjarnan 18 8 4 6 34 - 30 +4 28
5.    Vestri 18 8 2 8 19 - 17 +2 26
6.    Fram 18 7 4 7 28 - 25 +3 25
7.    FH 18 6 4 8 31 - 27 +4 22
8.    KA 18 6 4 8 18 - 32 -14 22
9.    ÍBV 18 6 3 9 16 - 25 -9 21
10.    KR 18 5 5 8 39 - 41 -2 20
11.    Afturelding 18 5 5 8 21 - 27 -6 20
12.    ÍA 18 5 1 12 20 - 39 -19 16
Athugasemdir