Vestri hefur rétt skútuna við eftir erfiðan kafla í aðdraganda undanúrslitaleiksins gegn Fram í Mjólkurbikarnum. Á þeim kafla gekk liðinu erfiðlega að skora mörk og sækja úrslit. Eftir að hafa komist í bikarúrslitin hefur gengið verið gott, sjö stig tekin úr leikjunum þremur.
Fótbolti.net ræddi við Davíð Smára Lamude, þjálfara Vestra, um stöðuna og framhaldið.
Fótbolti.net ræddi við Davíð Smára Lamude, þjálfara Vestra, um stöðuna og framhaldið.
„Ég er mjög ánægður með stöðuna á Vestraliðinu í dag. Það kom kafli þar sem gekk bölvanlega að skora, en það eru samt heilt yfir ekki margar frammistöður í sumar sem ég er mjög óánægður með. Við eigum mjög fína frammistöðu á móti Víkingi og Val - heppnin var ekki með okkur þegar við fengum ekki víti á móti Val, hefðum þar getað jafnað leikinn sem mér fannst við verðskulda. Frammistaðan heima gegn Skaganum og úti gegn FH, þær sitja eftir. Svo er það seinni hálfleikurinn á móti Aftureldingu og síðasta korterið á móti KR - eftir að við vorum kýldir í magann. Heilt yfir hef ég verið mjög sáttur með liðið."
„Daði Berg kom til okkar sem lykilmaður, hann strögglar við meiðsli og á þeim kafla erum við í brasi með að finna mann í hans hlutverk. Við prófuðum ýmislegt og eftir komu Ágústs höfum við tekið sjö stig úr þremur leikum. Við horfum upp og áfram í þessu," segir Davíð Smári.
Ákall til stuðningsfólks Vestra
Framundan hjá Vestra er leikur gegn Stjörnunni þar sem liðið getur svo gott sem tryggt sér sæti í efri hluta deildarinnar og með sigri farið upp í Evrópusæti. Næsti leikur eftir það er svo sjálfur bikarúrslitaleikurinn gegn Val.
„Ég væri til í að sjá Vestramenn fjölmenna á leikinn gegn Stjörnunni. Mér finnst að allt okkar Vestrafólk eigi að sameinast á móti Stjörnunni, taka þar smá generalprufu fyrir leikinn á móti Val. Það er ekki oft sem lið og stuðningsmenn fá að upplifa svona ævintýri, við þurfum að kunna að meta það á meðan það er. Ég vil sjá allt stuðningsfólk Vestra mæta sem eina heild á Samsungvöllinn, æfa sig í að syngja og tralla og njóta þess að styðja sitt lið í mikilvægum leik á móti Stjörnunni, og undirbúa sig fyrir það sem koma skal á Laugardalsvelli," segir Davíð Smári.
Leikur Stjörnunnar og Vestra hefst klukkan 14:00 næsta sunnudag.
Besta-deild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Valur | 18 | 11 | 4 | 3 | 46 - 24 | +22 | 37 |
2. Víkingur R. | 18 | 9 | 5 | 4 | 33 - 24 | +9 | 32 |
3. Breiðablik | 18 | 9 | 5 | 4 | 30 - 24 | +6 | 32 |
4. Stjarnan | 18 | 8 | 4 | 6 | 34 - 30 | +4 | 28 |
5. Vestri | 18 | 8 | 2 | 8 | 19 - 17 | +2 | 26 |
6. Fram | 18 | 7 | 4 | 7 | 28 - 25 | +3 | 25 |
7. FH | 18 | 6 | 4 | 8 | 31 - 27 | +4 | 22 |
8. KA | 18 | 6 | 4 | 8 | 18 - 32 | -14 | 22 |
9. ÍBV | 18 | 6 | 3 | 9 | 16 - 25 | -9 | 21 |
10. KR | 18 | 5 | 5 | 8 | 39 - 41 | -2 | 20 |
11. Afturelding | 18 | 5 | 5 | 8 | 21 - 27 | -6 | 20 |
12. ÍA | 18 | 5 | 1 | 12 | 20 - 39 | -19 | 16 |
Athugasemdir