Raphinha og Camavinga til Manchester - Thuram til ensks toppliðs - Newcastle með plan ef Isak fer
banner
   mið 12. október 2022 21:06
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Salah skoraði þrennu á sex mínútum - Lewandowski bjargaði Barcelona
Mohamed Salah skoraði þrjú og Elliott eitt
Mohamed Salah skoraði þrjú og Elliott eitt
Mynd: EPA
Roberto Firmino var magnaður
Roberto Firmino var magnaður
Mynd: EPA
Robert Lewandowski bjargaði Börsungum
Robert Lewandowski bjargaði Börsungum
Mynd: EPA
Harry Kane skoraði úr víti en klúðraði einu undir lokin
Harry Kane skoraði úr víti en klúðraði einu undir lokin
Mynd: EPA
Mohamed Salah kom af bekknum og skoraði þrennu í 7-1 sigri Liverpool á Rangers, í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld en liðið er nú einu stigi frá því að tryggja sæti sitt í 16-liða úrslitum. Tottenham vann þá Eintracht Frankfurt, 3-2, þar sem Heung-Min Son skoraði tvö fyrir heimamenn.

Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, var djarfur í liðsvalinu og setti Salah á bekkinn. Firmino og Darwin Nunez byrjuðu upp á topp og þá kom Ibrahima Konate og Joe Gomez einnig inn í liðið.

Ekki byrjaði það vel fyrir Liverpool en liðið lenti undir á 17. mínútu eftir mark frá Scott Arfield. Sama sagan með liðið en gestirnir áttu svo sannarlega eftir að svara fyrir sig.

Roberto Firmino jafnaði metin eftir hornspyrnu Kostas Tsimikas nokkrum mínútum síðar. Firmino verið magnaður fyrir Liverpool á leiktíðinni þrátt fyrir slæma byrjun, en sá er heldur betur að sýna sig fyrir HM í Katar og ætlar hann að taka farseðilinn þangað.

Firmino kom Liverpool yfir á 55. mínútu eftir laglega fyrirgjöf frá Joe Gomez og svo lagði Firmino upp þriðja markið fyrir úrúgvæska framherjann Darwin Nunez. Brasilískir taktar í þeirri stoðsendingu áður en Nunez lagði hann í hægra hornið.

Nunez og Firmino fóru báðir af velli tæpum tveimur mínútum síðar og inn kom hungraður Mohamed Salah. Hann gerði fjórða mark Liverpool á 75. mínútu eftir að hafa tekið á móti háum bolta, keyrt að marki og potað honum í netið og síðan kom annað markið og það aftur eftir undirbúning Diogo Jota. Það mátti setja spurningamerki við Allan McGregor í marki Rangers, en Salah var alveg sama um það.

Það var svo á 82. mínútu sem Salah gerði þriðja mark sitt í leiknum og auðvitað var það Jota sem lagði það upp. Jota lagði hann inn hægra megin í teiginn og Salah tók nokkrar snertingar áður en hann kláraði örugglega í netið. Harvey Elliott gerði sjöunda og síðasta mark Liverpool í leiknum undir lokin. Egypski faróinn er mættur aftur og það með stæl. Lokatölur 7-1 fyrir Liverpool sem er með 9 stig eftir fjóra leiki og einu stigi frá því að komast í 16-liða úrslit.

Í B-riðli vann Porto góðan 3-0 sigur á Bayer Leverkusen. Diogo Costa, markvörður Porto, lagði upp fyrsta markið fyrir Galeno áður en hann varði svo vítaspyrnu frá Kerem Demirbay.

Mehdi Taremi bætti við tveimur mörkum og gerði út um leikinn en Porto er í öðru sæti B-riðils með 6 stig.

Bayern í 16-liða úrslit og Lewandowski bjargaði Börsungum

Bayern München er búið að tryggja sig í 16-liða úrslitin eftir 4-2 sigur á Viktoria Plzen. Öll mörk Bayern komu í fyrri hálfleik en Leon Goretzka gerði tvö mörk og þá komust þeir Sadio Mané og Thomas Müller einnig á blað. Bayern er á toppnum í C-riðli með 12 stig.

Robert Lewandowski, framherji Barcelona, bjargaði liðinu á síðustu stundu í 3-3 jafntefli gegn Inter í C-riðli.

Ousmane Dembele kom Börsungum yfir áður en Alessandro Baston jafnaði. Lautaro Martinez náði forystunni fyrir Inter í síðari hálfleiknum en Robert Lewandowski jafnaði.

Robin Gosens taldi sig hafa skorað sigurmark Inter á 89. mínútu og hefði það mark tryggt Inter í 16-liða úrslit en Lewandowski gaf Barcelona von fyrir síðustu tvö leikina með að jafna seint í uppbótartíma. Inter er í 2. sæti með 7 stig en Barcelona í 2. sæti með 4 stig.

Son í góðum gír í Lundúnum

Heung-Min Son virðist hafa fundið gírinn eftir að hann skoraði tvö mörk í 3-2 sigri Tottenham á Eintracht Frankfurt í D-riðli.

Tottenham lenti undir á 14. mínútu en Tottenham kom til baka og jafnaði í gegnum Son eftir góða sendingu frá Harry Kane. Þá fékk Tottenham vítaspyrnu tæpum fimmtán mínútum síðar er Kane féll í teignum og skoraði Englendingurinn örugglega úr spyrnunni.

Son bætti við þriðja marki Tottenham á 36. mínútu með góðu vinstri fótar skoti og staðan orðin 3-1. Son gat fullkomnað þrennu sína stuttu síðar en Kevin Trapp varði meistaralega frá honum.

Gestirnir náðu að minnka muninn undir lok leiksins áður en Tottenham fékk aðra vítaspyrnu sína í leiknum. Í þetta sinn hitti Kane ekki markið, en það kom ekki að sök og 3-2 sigur Tottenham staðreynd.

Marseille lagði þá Sporting, 2-0 í sama riðli. Matteo Guendouzi og Alexis Sanchez með mörkin. Tottenham er í efsta sæti D-riðils með 7 stig, en Marseille í öðru með 6 stig.

Úrslit og markaskorarar:

A-riðill:

Rangers 1 - 7 Liverpool
1-0 Scott Arfield ('17 )
1-1 Roberto Firmino ('24 )
1-2 Roberto Firmino ('55 )
1-3 Darwin Nunez ('66 )
1-4 Mohamed Salah ('75 )
1-5 Mohamed Salah ('80 )
1-6 Mohamed Salah ('81 )
1-7 Harvey Elliott ('87 )

B-riðill:

Bayer 0 - 3 Porto
0-1 Wenderson Galeno ('6 )
0-1 Kerem Demirbay ('16 , Misnotað víti)
0-2 Mehdi Taremi ('53 , víti)
0-3 Mehdi Taremi ('64 , víti)

C-riðill:

Barcelona 3 - 3 Inter
1-0 Ousmane Dembele ('40 )
1-1 Nicolo Barella ('50 )
1-2 Lautaro Martinez ('63 )
2-2 Robert Lewandowski ('82 )
2-3 Robin Gosens ('89 )
3-3 Robert Lewandowski ('90 )

Plzen 2 - 4 Bayern
0-1 Sadio Mane ('10 )
0-2 Thomas Muller ('14 )
0-3 Leon Goretzka ('25 )
0-4 Leon Goretzka ('35 )
1-4 Adam Vlkanova ('62 )
2-4 Jan Kliment ('75 )
D-riðill:

Tottenham 3 - 2 Eintracht Frankfurt
0-1 Daichi Kamada ('14 )
1-1 Son Heung-Min ('20 )
2-1 Harry Kane ('28 , víti)
3-1 Son Heung-Min ('36 )
3-2 Faride Alidou ('87 )
3-2 Harry Kane ('90 , Misnotað víti)
Rautt spjald: Tuta, Eintracht Frankfurt ('60)

Sporting 0 - 2 Marseille
0-1 Matteo Guendouzi ('20 , víti)
0-2 Alexis Sanchez ('30 )
Rautt spjald: ,Ricardo Esgaio, Sporting ('19)Pedro Goncalves, Sporting ('60)
Athugasemdir
banner
banner