Mainoo að fá nýjan samning - Tekur Guardiola við enska landsliðinu - Eriksen fer til Ajax
banner
   lau 12. október 2024 17:59
Ívan Guðjón Baldursson
Þjóðadeildin: Króatía hafði betur gegn Skotlandi
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Þremur fyrstu leikjum dagsins er lokið í Þjóðadeild karla, þar sem Króatía tók á móti Skotlandi í A-deild.

Ryan Christie tók forystuna fyrir Skota eftir vandræðagang í varnarleik Króata en Igor Matanovic, leikmaður Eintracht Frankfurt, var snöggur að jafna eftir undirbúning frá Ivan Perisic.

Staðan var 1-1 eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik en heimamenn í Króatíu skiptu um gír eftir leikhlé.

Andrej Kramaric kom þeim yfir á 70. mínútu og voru heimamenn óheppnir að bæta ekki við.

Skotar fengu sín færi og reyndu að sækja jöfnunarmark í uppbótartíma en fundu ekki leið í gegnum skipulagða vörn Króatíu, ekki fyrr en á síðustu sekúndum leiksins þegar boltinn endaði í netinu eftir skrýtna sókn.

Leikurinn var stopp í nokkrar mínútur á meðan dómarateymið í VAR-herberginu skoðaði markið gaumgæfilega og gaf að lokum rangstöðu.

Lokatölur 2-1 og er Króatía komin með 6 stig eftir þrjár fyrstu umferðirnar í Þjóðadeildinni. Skotland er án stiga.

Þá fóru tveir leikir fram í C-deildinni, þar sem Kósovó sigraði í Litháen á meðan Búlgaría gerði markalaust jafntefli við Lúxemborg.

Edon Zhegrova, samherji Hákons Arnars Haraldssonar hjá Lille, skoraði í sigri Kósovó og þá átti Milot Rashica, fyrrum leikmaður Norwich, stoðsendingu.

Kósovó og Búlgaría eru í toppbaráttu í C-deildinni og stefna upp í B-deildina fyrir áramót.

Litháen og Lúxemborg þurfa að spýta í lófana til að forða sér frá falli niður í D-deild, sem er neðsta deildin.

Króatía 2 - 1 Scotland
0-1 Ryan Christie ('33 )
1-1 Igor Matanovic ('36 )
2-1 Andrej Kramaric ('70 )

Lithuania 1 - 2 Kosovo
0-1 Edon Zhegrova ('20 )
0-2 Ermal Krasniqi ('65 )
1-2 Paulius Golubickas ('84 )

Bulgaria 0 - 0 Luxembourg
Athugasemdir
banner
banner