Íslandsmeistarar Breiðabliks töpuðu fyrir dönsku meisturunum í Fortuna Hjörring, 1-0, í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikarsins á Kópavogsvelli í kvöld.
Blikar komu sér í margar góðar stöður í fyrri hálfleiknum, en vantaði oft upp á herslumuninn og klára úrslitasendingar.
Joy Omewa Ogochukwu var hættuleg hjá Fortuna Hjörring, en Herdís Halla Guðbjartsdóttir var að eiga góðan leik í markinu og bauð upp á nokkrar góðar vörslur.
Þegar flautað var til hálfleiks var staðan markalaus og Blikar í þokkalegri stöðu, en það var skortur á einbeitingu í upphafi þess síðari sem varð til þess að Ogochukwu skoraði markið sem skildi liðin að.
Klaufagangur í vörninni varð til þess að boltinn barst til Ogochukwu sem skoraði með laglegu skoti í fjærhornið.
Blikar voru í raun heppnar að lenda ekki tveimur undir aðeins andartaki síðar er Heiðdís Lillýardóttir gaf boltann á Nikoline Nielsen. Herdís fór í skógarhlaup en sem betur fer fyrir Blika hafnaði tilraun Nielsen í hliðarnetinu.
Barbára Sól Gísladóttir var hársbreidd frá því að jafna metin þegar tíu mínútur voru eftir. Skot hennar stefndi í samskeytin en þá mætti Andrea Paraluta, markvörður Fortuna, með þessa rosalegu vörslu og tókst að bægja hættunni frá.
Á lokamínútum gat Fortuna komið sér í frábæra stöðu fyrir síðari leikinn er Kristín Dís Árnadóttir átti slaka sendingu til baka, en Herdís kom Blikum til bjargar og varði frá Ogoochukwu.
Niðurstaðan á Kópavogsvelli 1-0 fyrir Fortuna sem verða að teljast svekkjandi úrslit, en einvígið er langt í frá búið og margt sem getur gerst í seinni leiknum sem spilaður er ytra eftir viku.
Athugasemdir




