„Ég ætla að láta allar stelpurnar skrifa eitthvað á boltann. Ég er svo ánægð og mun líklega aldrei gleyma þessum leik. Það verður allavega langt þar til það gerist," sagði Sveindís Jane Jónsdóttir eftir ótrúlegan leik í Meistaradeildinni í gær þegar hún skoraði fernu í 6-1 sigri á Roma.
Sveindís kom inná sem varamaður á 66. mínútu leiksins í stöðunni 2-1 og skoraði strax tveimur mínútum síðar og hélt svo áfram að bæta við mörkum þar til þau voru orðin fjögur. Sigurinn tryggði Wolfsburg sæti í 8 liða úrslitum.
Wolfsburg hafði lent undir í leiknum en sneri því svo við.
„Það er alltaf erfitt að vera 0-1 undir því ef við gerum mistök og þær skora þá er leikurinn jafn. Það var rosalega gott að komast í 2-1 því þá fengum við sjálfstraust og 3-1 markið var mjög gott fyrir okkur. Við héldum svo áfram og vorum svo ákveðnar að við náðum að brjóta þær niður. Við vildum þetta meira."
Wolfsburg birti viðtalið við Sveindísi í myndbandinu hér að neðan en þar sést að stemmningin var mikil þegar Sveindís mætti í viðtalið.
Athugasemdir