Man Utd gæti átt von á tilboði frá Napoli í Alejandro Garnacho - Bayern München vill Mainoo - Man City til í að hleypa Walker frítt
   mán 13. janúar 2025 16:27
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
„Ég sé ekki eftir því í eina sekúndu að hafa komið hingað út"
Jason Daði um lífið hjá Grimsby Town
Jason Daði Svanþórsson.
Jason Daði Svanþórsson.
Mynd: Grimsby
Jason fór frá Breiðabliki til Grimsby.
Jason fór frá Breiðabliki til Grimsby.
Mynd: Getty Images
Fagnar marki með Breiðabliki.
Fagnar marki með Breiðabliki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ísmaðurinn'
'Ísmaðurinn'
Mynd: Grimsby
'Ég sé ekki eftir því í eina sekúndu að hafa komið hingað út'
'Ég sé ekki eftir því í eina sekúndu að hafa komið hingað út'
Mynd: Getty Images
„Þetta er mjög fínt. Það er rólegt utan vallar og svo er hrikalega skemmtilegt að spila fyrir Grimsby. Þessa fyrstu mánuði hef ég verið mjög sáttur," segir Jason Daði Svanþórsson, leikmaður Grimsby Town, í samtali við Fótbolta.net.

„Það gekk vel að aðlagast hérna. Það tók smá tíma að koma sér fyrir og græja allt. Um leið og allt var klárt, þá aðlagaðist maður hratt. Fótboltalega séð, þá líður manni betur eftir því sem maður spila meira. Maður tengir þá meira við liðsfélagana," segir Jason sem gekk í raðir Grimsby í sumar.

Mjög rólegt og gott
Það vakti athygli þegar Jason tók stökkið frá Breiðabliki til Grimsby síðastliðið sumar. Grimsby spilar í ensku D-deildinni en það gerist ekki oft að leikmenn taki stökkið þangað beint frá Íslandi. Jason er núna búinn að koma sér vel fyrir Grimsby og er að standa sig vel innan vallar.

„Ég og kærastan búum saman hérna í Grimsby. Þetta er mjög rólegt. Ef maður er að sækjast í það að fara fínt út að borða, versla eða eitthvað þá getur maður keyrt til Sheffield, Leeds eða Manchester, eða þá tekið lestina til London. Ég sakna þess allavega ekkert bilað að hafa allt á milljón í kringum mig," segir Jason.

„Það er munur á því að vera hér og á Íslandi. Ég er ekki að gera neitt en að spila fótbolta hérna. Heima var maður að vinna með því. Maður er ekki að hitta vini eða fjölskyldu eftir æfingar og það er mun rólegra. Það er mikill munur á þessu. Fótboltinn er líka aðeins öðruvísi en hann er heima. Það er meiri stöðubarátta."

Þurfa að finna stöðugleika
Eins og Jason nefnir, þá er nokkur munur á fótboltanum í Bestu deildinni og í ensku D-deildinni. Það er líklega hægt að fullyrða að það sé meiri harka í ensku neðri deildunum.

„Þetta er gott tækifæri til að geta bætt sig í þeim hlutum leiksins sem eru ekki endilega aðalatriðið á Íslandi," segir jaosn.

„Það tók smá tíma að komast inn í hlutina þar sem ég meiðist í fyrsta leik og fer út af eftir 30 mínútur sem var ekki draumur. Síðustu vikur hefur svo gengið betur og ég þarf að byggja ofan á það."

Hjá liðinu gengur ágætlega en það er í kringum umspilið. Stefnan er sett á að vera með í baráttunni um að fara upp.

„Við erum búnir að vera í kringum umspilið. Það er rosa lítið á milli í þessu en markmiðið er að enda í umspilinu. Eins og öll lið í heiminum, erum við að leitast eftir betri stöðugleika. Við getum átt frábæra frammistöðu og unnið góð lið en svo í næstu viku töpum við gegn liði sem er neðarlega í deildinni. Þetta er eitthvað sem við verðum að bæta okkur í," segir Jason.

Keyra í marga klukkutíma
Stuðningsmenn Grimsby eru grjótharðir en þeir hafa tekið vel á móti Jasoni. Þeir eru ekkert að flækja málinu þegar kemur að gælunafninu en hann er einfaldlega kallaður „Iceman" eða „Ísmaðurinn".

„Þetta eru mjög góðir stuðningsmenn og eru sérstaklega frábærir í útileikjum. Það ferðast mjög margir, oft í kringum 2000 manns. Þeir keyra í marga klukkutíma til að sjá okkur spila. Þeir eru geggjaðir," segir Jason.

„Þeir hafa tekið vel á móti mér. Ég er ekki að skoða mikið það sem er skrifað um mig en á vellinum eru þeir mjög góðir. Allir sem ég hef talað við eru mjög vingjarnlegir."

Mjög stoltur
Jason er búinn að koma sér vel fyrir Grimsby en hann er ekkert mikið að pæla í framtíðinni eins og er.

„Ég er rosa lítið að pæla í framtíðinni ef ég á að vera hreinskilinn. Það er alltaf bara næsti leikur. Ég er að vona að við náum okkar markmiðum sem lið, og auðvitað ég sem einstaklingur líka. Maður verður bara að sjá hvert það tekur mann."

„Ég er mjög sáttur hérna. Mér finnst lífið utan fótboltans mjög fínt og ég er mjög stoltur að vera leikmaður Grimsby," segir Jason.

Að fara út til Englands er ákvörðun sem hann sér alls ekki eftir.

„Ég sé alls ekki eftir því að hafa tekið skrefið út til Englands. Ég er mjög glaður. Maður verður að standa með þeirri ákvörðun sem maður tekur. Það er markmiðið næstu árin að sjá til þess að þetta hafi verið rétt ákvörðun. Ég sé ekki eftir því í eina sekúndu að hafa komið hingað út. Það er búið að vera geggjað að upplifa þennan kúltúr að spila hérna á Englandi," segir Jason.

„Maður finnur það alveg að fólk hérna lifir fyrir okkur og hvernig okkur gengur. Þetta skiptir fólk máli og þannig á það að vera. Maður vill gleðja þau," sagði kantmaðurinn öflugi að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner