Tottenham vill Eze - Belgi orðaður við Arsenal - Man Utd í viðræðum um Rabiot
   fim 13. júní 2024 10:41
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gestirnir gáfu sektarsjóðinn sinn á fallegri stundu í Árbænum
Liðin tvö eftir leikinn.
Liðin tvö eftir leikinn.
Mynd: Fylkir
Elskum og njótum leiksins.
Elskum og njótum leiksins.
Mynd: Fylkir
Fylkisliðið með fjölskyldu Egils.
Fylkisliðið með fjölskyldu Egils.
Mynd: Fylkir
Minnigarleikur Egils Hrafns Gústafssonar fór fram á Fylkisvelli fyrir framan rúmlega 400 áhorfendur fyrr í vikunni þegar 2. flokkur Fylkis fékk Hauka í heimsókn. Leikurinn endaði með 7-4 sigri Fylkismanna.

Egill Hrafn var 17 ára gamall og spilaði með yngri flokkum félagsins en hann var einn og ef ekki öflugasti stuðningsmaður félagsins og átti sér draum um að spila fyrir meistaraflokk Fylkis. Egill lést í fyrra.

Gestirnir í Haukum gerðu afar flott góðverk fyrir leikinn en þeir gáfu sektarsjóð sinn - sem er oftast notaður í liðsskemmtun eða útlandaferð - í minningarsjóð Egils. „Það var falleg stund fyrir leik í gær þar sem fyrirliði Hauka afhenti foreldrum Egils peningagjöf í minningarsjóð Egils," segir á heimasíðu Fylkis.

„Fylkir fékk svo að gjöf bekk frá minningarsjóði Egils sem mun án efa njóta sín við æfingavöll Fylkis og hefur hann fengið nafnið Egilsstúka, með tveimur emojum – hjarta og geit. Þeir sem ekki þekkja til þá er geitar merkið notað sem G.O.A.T. eða 'greatest of all time'. Félagar hans og hann sjálfur notuðu þetta merki mjög mikið sín á milli. Þegar við sitjum á bekknum ætlum við að elska og njóta leiksins eins og Egill gerði svo eftirminnilega."

„Við viljum þakka Haukum sérstaklega fyrir skemmtilegan leik og frábæra gjöf og einnig þeim sem mættu og gerðu leikinn svona eftirminnilegan fyrir okkur öll! Það er á svona stundum sem maður finnur að fótboltinn er svo mikið meira en fótbolti. Samstaðan og liðsheildin er einstök."

Þeir sem vilja styrkja sjóðinn er bent á reikningsnúmer hans:
kt. 540723-0600
rn. 0515-14-007962

Markmið sjóðsins er að styðja við verkefni sem stuðla að þátttöku ungmenna á aldrinum 16-20 ára í íþrótta- og tómstundastarfi. Brotthvarf ungmenna á þessum aldri úr íþróttum og skipulögðu starfi þegar að grunnskóla og frístundastarfi sleppir er því miður alltof algengt. Aðgengi að íþróttum og tómstundum fyrir ungmenni þar sem félagslegi þátturinn og samvera er í fyrirrúmi er mikilvægt lýðheilsumál.
Athugasemdir
banner
banner
banner