þri 13. október 2020 09:46
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Morgunblaðið 
Hægt að klára bikarinn þó Íslandsmótinu væri hætt
Víðir Sigurðsson (til hægri) ásamt Guðmundi Hilmarssyni.
Víðir Sigurðsson (til hægri) ásamt Guðmundi Hilmarssyni.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Almarr Ormarsson.
Almarr Ormarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Eins og staðan er á höfuðborgarsvæðinu þessa dagana er lítið vit í því að reyna að spila fótbolta, hvað þá að ferðast á milli landshluta til þess. Það eina rétta er að halda að sér höndum, gera sitt besta til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar og vonast til þess að faraldurinn sé í rénun," skrifar Víðir Sigurðsson, yfirmaður íþróttafrétta Morgunblaðsins, í pistli sem birtur er í morgun.

Hann er þar að fjalla um niðurstöðu könnunar Leikmannasamtakana þar sem fram kemur að stór hluti leikmanna vilji að keppni á Íslandsmótinu verði hætt.

„Hafi staðan gjörbreyst næsta mánudag og allt horfi til betri vegar er sjálfsagt mál að gera það sem hægt er til að ljúka Íslandsmótinu á eðlilegan hátt á 2-3 vikum. En sem betur fer setti KSÍ reglugerð til bráðabirgða í sumar sem veitir sambandinu heimild til að hætta keppni hvenær sem er, héðan af, og þá mun hlutfallsstaða liða í deildum verða endanleg lokastaða."

„Sum félög myndu hagnast á því, önnur ekki, en slíka ákvörðun þyrfti að taka með heildarhagsmuni allra að leiðarljósi. Þá verður að horfa framhjá stundarhagsmunum einstakra félaga," skrifar Víðir.

Undanúrslitaleikir og úrslitaleikir eru eftir í bikarkeppni karla og kvenna en Víðir bendir á að þó Íslandsmótinu væri hætt þá væri mögulegt að ljúka þeim leikjum.

„Bikarúrslitin má eftir sem áður alltaf leika snemma á nýju ári, eða þess vegna næsta vor. Þau þarf ekki að útkljá til að fá Evrópusæti á hreint fyrr en í lok maí."

Stundum þarf að fara erfiðu leiðina
Morgunblaðið er með mjög áhugaverða úttekt um óvissustöðuna á Íslandsmótinu í blaði dagsins. Almarr Ormarsson, leikmaður KA, og Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður Selfoss, segja sína skoðun.

„Það er verið að teygja endalaust á þessu sem er erfitt. Þetta er heldur ekki eins og í atvinnumannadeildunum erlendis þar sem hægt er að fara fram á að fólk einangri sig þar sem þetta er þess vinna. Þetta getur raskað svo miklu hjá leikmönnum, vinnu, skóla sem og fjölskyldulífi. Það er kannski kjánalegt að segja þetta en þetta tekur alveg á hausinn hjá manni líka," segir Almarr.

„Ef við ættum að fara og spila fyrir sunnan núna þá væri maður stressaður. Það hefur ýmislegt verið gert til þess að minnka líkur á smiti eins og til dæmis að skipta klefunum upp og annað í þeim dúr. Að sama skapi hafa engar aukaskimanir átt sér stað á leikmönnum né starfsfólki."

Dagný er er ein af þeim sem vilja klára tímabilið en segir of langt gengið í umræðunni að segja að það yrði ósanngjarnt að aflýsa tímabilinu.

„Við höfum enga stjórn á þeim aðstæðum sem eru í þjóðfélaginu í dag. Stundum þarf að fara erfiðu leiðina ef ekkert annað er í boði," segir Dagný við Morgunblaðið.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner