
Það var uppselt á Laugardalsvelli í kvöld þegar Ísland gerði 2-2 jafntefli við Frakkland. Stuðningurinn úr stúkunni var gríðarlegur sérstaklega í lokin, en Arnar Gunnlaugsson þjálfari Íslands sagði á blaðamannafundi eftir leik að hann vill fá enn meira frá fólki í stúkunni á erfiðustu stundum leiksins.
Lestu um leikinn: Ísland 2 - 2 Frakkland
„Stuðningurinn hjálpaði klárlega í lokin. Það er í okkar DNA Íslendinga, að við erum fólk sem er frekar til baka og þegar við verðum stressuð þá verðum við hljóð. Það komu stundir í leiknum þar sem Frakkarnir lágu á okkur og þá urðu allir rosa hljóðir og förum inn í okkur. Það er bara okkar DNA og ekkert vont um það að segja. Síðustu tíu mínúturnar þá tóku allir virkilega við sér og ýttu okkur yfir línuna, því orkan sem þeir gefa okkur er einstök. Ég vil ekki kvarta því stuðningurinn var frábær, en getum við breytt DNA-inu okkar aðeins og verið aðeins meira hávær þegar liggur vel á okkur í staðinn fyrir fara inn í skel," sagði Arnar
Íslenskir stuðningsmenn hafa einnig mikið látið í sér heyra á netinu og það hefur verið töluvert umtal að það vanti 'sexu' í liðið, eða djúpann miðjumann. Arnar virðir þá skoðun en hefur aðra sýn á málinu.
„Ég virði allar skoðanir, og þetta er það skemmtilega við okkar leik. Það er eru allskonar skoðanir í gangi og örugglega hægt að færa rök fyrir þeim öllum. Mín reynsla af fótbolta er að það eru plúsar og mínúsar í öllu. Ef þú velur svona sexu þá færðu svona leik, en þú fórnar þessu. Þannig þetta er líka spurning um hvað þú vilt fórna. Sexurnar okkar í dag Ísak og Hákon voru frábærir, við setjum tvær aðrar sexur inn, Mikki og Stefán. Þetta eru bara ólíkir prófílar, eins og staðan er í dag getum við bara gengið stoltir frá borði úr þessum glugga. Uppskeran var rýr, við fengum bara eitt stig og fáum á okkur sjö mörk.
Það er ekki boðlegt ef þú ætlar að ná árangri, en ef þú horfir á frammistöðuna á móti Úkraínu og stigið á móti Frökkum. Mögulega stundum tapar þú leik, en þú vinnur samt í stundinni. Ef við hefðum unnið Úkraínu 3-0 en tapað fyrir Frökkum, hvort er betri tilfinning? Ef við hefðum unnið Úkraínu með verri frammistöðu. Þannig þetta er alltaf spurning um hvað þú selur þínum leikmönnum. Mér fannst glugginn frábær af því frammistaðan á móti Úkraínu var geggjuð og stigið á móti Frökkum geggjað. Þannig ég geng mjög stoltur frá borði," sagði Arnar.