Landsliðsþjálfarinn Arnar Gunnlaugsson gefur lítið fyrir að það vanti lykilmenn í franska hópinn sem mætir Íslandi á Laugardalsvelli í kvöld.
Frakkland verður án fyrirliðans Kylian Mbappe, Ibrahima Konate, Désiré Doué, Bradley Barcola og gullboltahafans Ousmane Dembéle, svo fáein nöfn séu nefnd. Arnar var spurður um efnið á blaðamannafundi í gær.
„Þeir eru þá bara með Nkunku, Olise og Mateta. Þetta getur farið á tvo vegu. Annars vegar munu þeir sakna þessara stóru stjarna. Eða hinsvegar, eins og ég á frekar von á að gerist, að inn í liðið koma leikmenn sem hafa að miklu að keppa og mikið að sanna til að komast í HM hóp Frakka.“
„Ég á frekar von á því að vegna þess að þetta eru það miklir íþróttamenn og karakterar að þeir leysa fjarveru þessara þriggja leikmanna með miklum sóma,“ sagði Arnar að lokum.