Pickford framlengir við Everton - Barcelona hyggst kaupa Rashford - Ekki framlengt við Lewandowski
   mán 13. október 2025 22:14
Haraldur Örn Haraldsson
Arnar léttur - „Þetta var allt Gulla að kenna"
Eimskip
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson

Ísland gerði 2-2 jafntefli við Frakkland í kvöld, en Guðlaugur Victor Pálsson skoraði fyrra mark Íslands. Guðlaugur fékk mikla gagnrýni eftir leik Íslands gegn Úkraínu á föstudaginn en svaraði með góðri frammistöðu í kvöld. Arnar Gunnlaugsson þjálfari Íslands talaði mjög vel um hann á blaðamannafundi eftir leik.


Lestu um leikinn: Ísland 2 -  2 Frakkland

„Maður er að senda skilaboð til leikmanna og telja þeim trú um að þeir séu bestir. Hann hafði aldrei brugðist mér allavega og af mér vitandi ekki þjóðinni heldur. Hann var ekki eins slæmur eins og umtalið var, hann átti ekki 10, en hann átti ekki tvist. Hann var ekki eins slæmur eins og margur heldur. Karakterinn, og hversu mikill stríðsmaður hann er, það sýndi sig í kvöld," sagði Arnar en Guðlaugur fékk 2 í einkunn í einkunnargjöf fótbolti.net eftir leikinn gegn Úkraínu.

Mörkin sem Frakkland skoraði komu bæði upp hægri kantinn og Arnar var spurður hvað hefði mátt fara betur þar.

„Þetta var bara allt Gulla að kenna," sagði Arnar og hló. „Fyrsta markið var náttúrulega bara geggjað mark hjá þeim. Ef við myndum frjósa alla ramma og svoleiðis, þá getur þú alltaf fundið eitthvað að hjá einhverjum. Sverrir steig of fljótt upp og Gulli sat eftir og allt fram eftir götunum. Við erum bara að eiga við heimsklassa leikmenn, ég vil frekar horfa á það að stundum ert þú bara að spila á móti klassa leikmönnum og þeir bara fundu gat á okkur. Þetta eru gaurar sem kosta grilljónir, þannig bara kredit á þá, geggjuð mörk hjá þeim. Gátum við gert betur? Já að sjálfsögðu en kredit á Frakkana að skora þessi frábæru mörk.

Ég vil líka tala um mörkin okkar sem við skorum. Eins og annað markið mér fannst það hrikalega flott mark, uppspils mark eftir pressu Frakkana. Þetta er eitthvað sem við erum að predika við strákana að vera svalir á boltann og í sumum leikjum ert þú minna með boltann og í öðrum leikjum ert þú meira með boltann. Þegar svona stundir koma í leikjum þá tekur við eitthvað vöðvaminni og strákarnir hafa fullt leyfi til að ráðast á þessar stundir. Það mark gladdi mig mjög mikið."




Athugasemdir