Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 13. nóvember 2020 11:48
Magnús Már Einarsson
Jón Þór vonast til að tveir sigrar tryggi EM sætið
Icelandair
Jón Þór Hauksson
Jón Þór Hauksson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Þór Hauksson, þjálfari kvennalandsliðsins, er bjartsýnn á að sigrar gegn Slóvakíu og Ungverjalandi geti tryggt beinan farseðil á EM í Englandi árið 2022.

Svíar hafa tryggt sér efsta sæti riðilsins en þau þrjú lið sem eru með bestan árangur í 2. sæti í riðlunum fara beint á EM. Önnur lið í 2. sæti fara í umspil.

„Við erum búin að koma okkur í mjög góða stöðu í riðlinum. Þetta eru þrjú lið sem fara með bestan árangur í 2. sæti beint á EM. Jafntefli við Svía hérna heima setur okkur í mjög góða stöðu gagnvart því svo framarlega sem við klárum leikina okkar báða úti núna. Markmiðið er að klára þá báða og klára það markmið okkar að komast á EM í Englandi," sagði Jón Þór við Fótbolta.net í dag.

„Við erum vongóð um það að 19 stig tryggi okkur eitt af þremur bestu liðunum í 2. sæti. Það er erfitt að reikna þetta akkúrat núna því liðin eru búin með mismarga leiki í riðlunum vegna frestanna. Riðlarnir klárast ekki í þessum glugga. Einhverjir leikir verða spilaðir í febrúar. Það gerir þetta svolítið erfitt að átta sig á möguleikunum. Eins og þetta lítur út ættu 19 stig að fleyta okkur ansi langt með þetta."

Ísland gæti mögulega tryggt EM sætið ef önnur úrslit verða hagstæð í lokaleikjum í hinum riðlunum í febrúar. „Það gæti farið þannig. Vonandi verður það niðurstaðan. Það er það sem við stefnum að."

Krefjandi undirbúningur út af kórónuveirunni
Keppni var hætt í Pepsi Max-deild kvenna í byrjun október og því eru margir leikmenn í hópnum ekki í mikilli leikæfingu.

„Það eru auðvitað erfiðar aðstæður hjá öllum í knattspyrnunni. Auðvitað er þetta þreytt ástand sem ríkir og við erum ekkert öðruvísi með það. Fótboltinn er búinn að vera stopp í langan tíma hérna heima og við erum með marga leikmenn sem spila í deildinni hérna heima. Það gerir okkur erfitt fyrir. Við sáum það að einhverju leyti á milli Svía leikjanna að þetta hjálpaði ekki til."

„Leikform skiptir gríðarlega miklu máli í þessu og það er ljóst að við erum að fara í gríðarlega krefjandi verkefni. Þetta eru tveir erfiðir útivellir. Bæði þessi lið hafa lent illa í Covid ástandinu. Ungverjar lentu í því að missa tólf leikmenn rétt fyrir leikinn á móti Svíum um daginn. Við megum ekki láta blekkjast af því. Ég geri ráð fyrir því að bæði þessi lið séu komin með sína lykilleikmenn aftur í hópinn og við gerum ráð fyrir krefjandi verkefni."


Æfa á Íslandi
Jón Þór er með æfingar fyrir hluta leikmannahópsins á Íslandi þessa dagana.

„Við fengum undanþágu til að æfa hérna heima. Við erum með þessar svokölluðu Covid æfingar fyrir lítið brot af hópnum hérna heima. Leikmenn Vals eru að undirbúa sig fyrir Evrópuleik í næstu viku og eru ekki með okkur. Það eru átta leikmenn sem hafa æft með okkur og við fögnum því auðvitað. Maður er þakklátur fyrir að hafa allavega getað gert það. Við erum að undirbúa þá leikmenn. Síðan förum við út 22. nóvember og þá hefst lokaundirbúningur þegar við fáum allan hópinn saman. Við undirbúum okkur vel fyrir þessa leiki. Þrátt fyrir allt erum við mjög bjartsýn og undirbúningurinn hefur gengið vel þrátt fyrir krefjandi aðstæður. Stelpurnar eiga hrós skilið fyrir það,"
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner