Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   þri 13. desember 2022 21:01
Brynjar Ingi Erluson
HM: Argentína í úrslit - Króatar áttu engin svör við Alvarez og Messi
Lionel Messi var stórkostlegur í kvöld
Lionel Messi var stórkostlegur í kvöld
Mynd: EPA
Julian Alvarez og Messi hafa myndað frábært teymi
Julian Alvarez og Messi hafa myndað frábært teymi
Mynd: EPA
Luka Modric og hans menn áttu engin svör við Argentínumönnum
Luka Modric og hans menn áttu engin svör við Argentínumönnum
Mynd: EPA
Argentína 3 - 0 Króatía
1-0 Lionel Messi (f) ('34 , víti)
2-0 Julian Alvarez ('39 )
3-0 Julian Alvarez ('69 )
Lestu um leikinn

Argentína er komið í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í Katar eftir að hafa unnið Króatíu, 3-0, í undanúrslitum í kvöld. Lionel Messi og Julian Alvarez léku á als oddi í annars þægilegum sigri á Króötum.

Leikurinn var lokaður framan í fyrri hálfleiknum. Eflaust mikið stress í mikilvægum leik en Argentínumenn fóru að sækja á Króata og var það Enzo Fernandez sem átti fyrsta hættulega færið er hann lét vaða af löngu færi en Dominik Livakovic varði vel frá honum.

Tæpum níu mínútum síðar dró til tíðinda. Julian Alvarez komst einn í gegn og átti bara eftir að koma boltanum í gegnum Livakovic. Króatíski markvörðurinn keyrði út á móti og ákvað Alvarez að lyfta boltanum yfir hann.

Alvarez tókst það en Livakovic hamraði framherjann niður í leiðinni áðru en varnarmenn Króata hreinsuðu frá. Daniele Orsato, dómari leiksins, gat þó ekki annað en bent á punktinn og gefið Livakovic gula spjaldið.

Lionel Messi steig á punktinn og skoraði fimmta mark sitt á mótinu með föstu skoti hægra megin á markið. Óverjandi fyrir Livakovic.

Argentínumenn héldu áfram að sækja á Króata og aðeins fimm mínútum síðar bætti Alvarez við öðru marki eftir glæsilegan sprett eftir skyndisókn. Hann keyrði í gegnum þrjá varnarmenn áður en hann skilaði boltanum framhjá Livakovic.

Alexis Mac Allister var nálægt því að bæta við þriðja markinu undir lok fyrri hálfleiks en Livakovic varði skalla hans til hliðar.

Það var sama upp á teningnum í þeim síðari. Livakovic reyndi að halda Króötum inn í leiknum með mikilvægum vörslum en hann gat ekki komið í veg fyrir þriðja mark Argentínu á 69. mínútu.

Messi fékk þá boltann á hægri vængnum, keyrði upp að teignum áður en hann lék á Josko Gvardiol, kom boltanum fyrir á Alvarez sem átti ekki í vandræðum með að skora.

Lionel Scaloni, þjálfari Argentínu, fór að hvíla menn eftir þriðja markið og fékk meðal annars Paulo Dybala að spila, sem þykir ansi óvænt þar sem þessi hæfileikaríki leikmaður hafði ekki fengið mínútu allt mótið.

Argentína sigldi sigrinum heim og tryggði sig í úrslitaleikinn og það í annað sinn á síðustu þremur mótum. Argentína mætti Þýskalandi síðast árið 2014 en tapaði í framlengingu þökk sé marki Mario Götze.

Frakkland eða Marokkó verður andstæðingur Argentínu í þetta sinn en það ræðst á morgun hvort liðið spilar við Messi og félaga hans.
Athugasemdir
banner
banner