Real Madrid setur Alexander-Arnold í forgang - Barella orðaður við mörg félög - Tekur Montella við af Ten Hag? - Liverpool horfir á varnarmann Sevilla
   mið 14. febrúar 2024 14:07
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Sumir sem ég hef unnið með segja örugglega að ég sé örlítið klikkaður"
Bo Henriksen.
Bo Henriksen.
Mynd: EPA
Henriksen fær hér rauða spjaldið í leik með Fram.
Henriksen fær hér rauða spjaldið í leik með Fram.
Mynd: Fótbolti.net - Daníel Rúnarsson
Íslandsvinurinn Bo Henriksen var í gær ráðinn þjálfari Mainz í þýsku úrvalsdeildinni. Hann skrifaði undir samning sem gildir til ársins 2026.

Henriksen, sem spilaði um gott skeið með ÍBV, Val og Fram hér á Íslandi, stýrði Horsens og Midtjylland í Danmörku áður en hann hélt til Zürich í Sviss í fyrra.

Þar hefur hann verið að vinna fínt starf og vakið áhuga annarra félaga, en hann hefur núna verið ráðinn til Mainz. Liðið er sem stendur í 17. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar en Henriksen fær það verkefni að bjarga liðinu frá falli.

„Ég lít á mig sem venjulega manneskju en sumir þeir leikmenn sem ég hef unnið með segja örugglega að ég sé örlítið klikkaður," sagði Henriksen léttur þegar hann sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag.

„Ég er bara góður að vera ég sjálfur. Ég trúi á fólk og því að það eigi að bera virðingu fyrir öllum."

„Ég vil að leikmennirnir mínir trúi á sjálfa sig og séu hugrakkir. Þeir gera kannski mistök en ég er tilbúinn að taka fulla ábyrgð á því. Leikmaðurinn sem vill ekki fá boltann, hann getur bara farið út af vellinum."

Tók sinn tíma að ná honum
Kjartan Henry Finnbogason, sem er í dag aðstoðarþjálfari FH, spilaði fyrir Henriksen hjá Horsens. Hann ræddi um hann í útvarpsþættinum Fótbolta.net árið 2016 og sagði þá:

„Hann er stórskrítinn og það tók sinn tíma að „ná honum" og hvernig týpa hann er. Hann er sálfræði-týpa og leggur áherslu á að það sé gaman og allir hamingjusamir. Hann gerir ekkert annað allan daginn en að hlæja og öskra. Hann gefur mikla orku frá sér og við höfum komist langt á því að hann sé öskrandi eins og bjáni á hliðarlínunni og að fá menn upp á móti sér. Það er ótrúlegt hvað það drífur mann langt," sagði Kjartan þá.

„Hann fær okkur til að leggja extra mikið á okkur. Ég hef lært helling og hef aldrei á ævinni þurft að hlaupa eins mikið. Hann gerir miklar kröfur til leikmanna og sérstaklega framherjana. Við erum tveir og eigum að dekka fjóra í hinu liðinu og elta þá alveg niður á endalínu. Ég hef bætt mig í því að vinna betur fyrir liðið og gefa 110% í alla leiki."

Það verður afar fróðlegt að sjá hvernig Henriksen gengur í Þýskalandi en vonandi tekst honum að halda Mainz uppi.
Athugasemdir
banner
banner