Watkins og Sesko efstir á óskalista Man Utd - Newcastle hefur einnig áhuga á Sesko - Everton vill Grealish
   fös 14. mars 2025 07:30
Brynjar Ingi Erluson
Maresca: Þurfum að gera okkar besta til að ná markmiðinu
Enzo Maresca
Enzo Maresca
Mynd: EPA
Enzo Maresca, stjóri Chelsea, var ánægður með að liðið hafi tryggt sæti sitt í 8-liða úrslitum Sambandsdeildar Evrópu í gær og að nú þurfi það að gera allt sem það getur til að ná markmiði tímabilsins.

Það er ekkert launungarmál að Chelsea ætlar sér að vinna Sambandsdeildina.

Chelsea er sigurstranglegasta lið keppninnar og er nú skrefi nær markmiði sínu eftir að hafa hent danska stórliðinu FCK úr leik, en Chelsea vann samanlagt, 3-1, eftir mikla baráttuleiki.

„Það er mikilvægt að komast í 8-liða úrslit. Núna er það næsta markmið og það eru undanúrslitin. Við verðskulduðum að komast áfram yfir tvo leiki. Við breyttum og náðum að aðlagast betur í seinni hálfleik og vorum mun betri. Það þarf þolinmæði," sagði Maresca.

Ítalski stjórinn var spurður út í það að ná árangri og væntingar stuðningsmanna til að vinna keppnina.

„Nákvæmlega. Þetta félag hefur alltaf unnið titla og við þurfum að gera okkar besta til að ná markmiði tímabilsins. Við þurfum að gefa stuðningsmönnunum og félaginu titil,“ sagði Maresca.

Chelsea mætir pólska liðinu Legia Varsjá í 8-liða úrslitum og er erfitt að sjá að það verði hindrun fyrir stjörnum prýddu liði þeirra bláklæddu.
Athugasemdir
banner