3. umferð Pepsi Max-deildarinnar er lokið en Thomas Mikkelsen skoraði þrennu þegar Breiðablik rúllaði yfir nýliða Keflavíkur 4-0. Fyrsti sigur Blika og danski sóknarmaðurinn er í úrvalsliði umferðarinnar, líkt og samherji hans Viktor Karl Einarsson.
Þjálfari umferðarinnar er Arnar Gunnlaugsson en Víkingar fóru í Garðabæinn, skoruðu þrjú mörk og fengu þrjú stig. Nikolaj Hansen skoraði tvívegis og er í úrvalsliðinu líkt og Kári Árnason.
KA vann sannfærandi 3-0 sigur gegn Leikni á Dalvík. Þrír leikmenn KA eru í úrvalsliðinu, þar á meðal miðvörðurinn Brynjar Ingi Bjarnason sem er í liðinu aðra umferðina í röð. Haukur Heiðar Hauksson var magnaður á miðjunni og Þorri Mar Þórisson var valinn maður leiksins.
Unnar Steinn Ingvarsson var valinn maður leiksins þegar Fylkir gerði 1-1 jafntefli við KR. Beitir Ólafsson, markvörður KR, varði vítaspyrnu og kom í veg fyrir að Fylkir tæki sigur.
HK tapaði á dramatískan hátt fyrir Val en þrátt fyrir það kom maður leiksins úr röðum Kópavogsliðsins. Binni bolti, Birnir Snær Ingason, var mjög ógnandi gegn sínu fyrrum félagi.
Þá skoraði Matthías Vilhjálmsson eitt af mörkum FH og var valinn maður leiksins í 5-1 sigri gegn ÍA. Skagamenn luku leiknum níu vegna brottvísunar og meiðsla.
Sjá einnig:
Úrvalslið 2. umferðar
Úrvalslið 1. umferðar
Fjallað er um 3. umferðina í Innkastinu sem má nálgast í spilaranum hér að neðan.
Athugasemdir