Pochettino á radar Man Utd og Bayern - McKenna orðaður við Chelsea - Slot við Kökcu til Liverpool
banner
   þri 14. maí 2024 23:00
Ívan Guðjón Baldursson
Pochettino vill vera áfram hjá Chelsea: Erum ekki gervifólk
Mynd: EPA
Gengi Chelsea hefur skánað umtalsvert eftir að Mauricio Pochettino tók við félaginu. Aðeins toppliðin þrjú Manchester City, Arsenal og Liverpool hafa safnað saman fleiri stigum heldur en Chelsea frá jólum.

Þjálfarastarf Pochettino virðist vera í hættu þrátt fyrir gott gengi síðustu mánuði en Pochettino er ekki að spá í orðrómum. Hann er einbeittur að því að klára leiktíðina með Chelsea og er hefur einnig hafið undirbúningsvinnu fyrir næstu leiktíð.

Chelsea heimsækir Brighton í mikilvægum leik annað kvöld og vonast Pochettino til að sigra þann leik, ná Evrópusæti og vera áfram hjá félaginu á næstu leiktíð.

Hljómurinn í Pochettino var ekki jafn jákvæður eftir 3-2 sigur gegn Nottingham Forest um helgina, þar sem argentínski þjálfarinn gaf í skyn að hann gæti yfirgefið Chelsea eftir leiktíðina.

„Við erum að vinna hörðum höndum að því að skipuleggja næstu leiktíð. Það má ekki taka þessum ummælum frá mér á svona neikvæðan hátt. Ég reyni alltaf að vera jákvæður og fer ekki leynt með tilfinningarnar sem ég ber í brjósti," sagði Pochettino þegar hann var spurður út í framtíðina.

„Ég sagði aldrei að ég væri ekki að hugsa um framtíðina. Við erum með tilbúið plan fyrir undirbúningstímabilið og næstu leiktíð, en þegar allt kemur til alls þá er þetta ekki í mínum höndum. Ég ræð því ekki sjálfur hvort ég verði áfram hérna eða ekki."

Pochettino hefur legið undir gagnrýni á tímabilinu þar sem ákveðnir stuðningsmannahópar Chelsea eru ekki sáttir með svona slæmt gengi eftir að félagið eyddi gífurlegum fjárhæðum til að kaupa inn nýja leikmenn.

„Við hérna í þjálfarateyminu erum ekki gervifólk. Við erum ekki að fara að ljúga að stuðningsfólki með að segjast elska eitthvað þó að við séum ekki enn komnir með tilfinningaleg tengsl. Það væri auðvelt fyrir mig að koma hingað og byrja að kyssa merki félagsins eftir fyrsta sigurinn, en það er ekki í mínu eðli. Ég vil skapa alvöru tilfinningar."
Athugasemdir
banner
banner
banner