
„Mér finnst alltaf gaman að bikarúrslitaleikjum, sérstaklega að kvöldi til þegar við fáum fótbolta í flóðjósum," segir Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamaður á RÚV, um bikarúrslitaleik Stjörnunnar og Breiðabliks annað kvöld klukkan 19:15.
„Ég held að við fáum opinn leik. Stjörnumenn spila opinn og skemmtilegan bolta. Blikar hafa verið aðeins varnarsinnaðari og beitt hraðanum meira. Ég held að þessi leikur verði rólegri fyrirfram en þegar fyrsta markið kemur fáum við alvöru veislu. Það á víst að rigna og það býður oft upp á ævintýralega leiki."
Leikurinn á morgun hefst klukkan 19:15 og Einar fagnar þeim leiktíma.
„Mér finnst kvöldleikir um helgar virka mjög vel. Þetta stækkar augnablikið. Að vera á Laugardalsvelli í bikarúrslitaleik með ljósin kveikt. Stemningin verður allt öðruvísi á laugardegi heldur en klukkan þrjú."
„Ég held að við munum fá líflegan leik og mikið líf í stúkunni. Það sannar kannski fyrir fólki að það er hægt að hafa leiki á laugardagskvöldi og einhverjir geta fengið sér smá eldvökva án þess að það verði eitthvað vesen," sagði Einar sem reiknar með góðri mætingu annað kvöld vegna leiktímans.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir