mán 14. september 2020 13:30
Innkastið
Lið eru búin að sjá það að Blikar eru klaufskir aftast
Úr leik FH og Breiðabliks í gær.
Úr leik FH og Breiðabliks í gær.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net
Klaufaleg einstaklingsmistök Breiðabliks og vonbrigði í sóknarleiknum í tapinu gegn FH í gær voru til umræðu í Innkastinu hér á Fótbolta.net.

Varnarleikur liðsins hefur ekki verið traustur.

„Breiðablik er augljóslega verk í vinnslu. Þeir gjörbreyta sínum leikstíl og mér finnst það mjög áþreifanlegt, þessi klaufamistök hér og þar og það vantar örlítið upp á til þess að hlutirnir gangi upp. Þetta er einkennandi fyrir lið sem er að læra inná nýja hluti. En auðvitað er þetta úrslitabransi," segir Ingólfur Sigurðsson.

Gunnar Birgisson veltir því fyrir sér hvort menn séu ánægðir með hvar Breiðabliksliðið er í sínu ferli á þessum tímapunkti.

„Ef þetta er eitthvað ferli þá er spurning hvort menn séu sáttir við hvar Breiðabliksliðið er statt akkúrat núna. Þá er ég aðallega að tala um einstaklinginn í kerfinu. Það eru of margir þarna sem hafa átt of dapurt tímabil. Annað hvort þarf að koma mönnum í meiri trú um að þetta sé málið eða hvort menn þurfi að læra betur inn á þetta," segir Gunnar.

„Lið eru búin að sjá það að Blikar geta verið klaufskir þarna aftast. Andstæðingarnir eru alveg fullkomlega sáttir við að leyfa Blikum að vera með boltann því þeir trúa því að þeirra tækifæri komi. Það er hlutverk Blika að gera eitthvað við boltann fram á við," segir Ingólfur.

Anton Ari Einarsson, markvörður Breiðabliks, hefur fengið talsverða gagnrýni og hann átti sök á þriðja marki FH.

„Þetta eru arfaslök mistök. Hann kemur inn í liðið þar sem hann þarf að spila á ákveðinn hátt og hann gerir það. Ég hef séð leiki þar sem hann er óaðfinnanlegur," segir Ingólfur og Gunnar bætir við:

„Hann er sjaldan með sömu mennina fyrir framan sig en Anton, eins og fleiri í þessu liði, eiga mikið inni."

Hlustaðu á umræðuna um Breiðablik í spilaranum hér að neðan en þar er meðal annars fjallað um bitleysi liðsins í sóknarleiknum gegn FH.
Innkastið - Yfirferð að loknum Ofursunnudegi
Athugasemdir
banner
banner
banner