Enski fótboltamaðurinn Dele Alli birti hjartnæma kveðju á samfélagsmiðlum í dag en hann kveður þar George Baldock, vin sinn til margra ára.
Baldock lést í síðustu viku, aðeins 31 árs að aldri, en hann fannst látinn á sundlaugarbakknum á heimili sínu í Aþenu. Krufning leiddi í ljós að Baldock hafi drukknað.
Bakvörðurinn var á mála hjá Panathinaikos og átti þá 12 A-landsleiki með Grikklandi.
Hann hóf feril sinn hjá MK Dons á Englandi en þar lék hann með Dele Alli, sem átti síðar eftir að spila með Tottenham og nú síðast Everton.
Leiðir þeirra skildust árið 2015 er Alli fór til Tottenham og þá fór Baldock til Sheffield United tveimur árum síðar, en þeir héldu þó alltaf góðu sambandi og eyddu sumarfríum saman.
Alli var sérstakur gestur á dögunum er Port Vale og MK Dons mættust á laugardag en þar var minning Baldock heiðruð fyrir leikinn.
„Engin skrifuð orð eða myndir væru nóg. Megi andinn, metnaðurinn, ákveðnin og hógværð þín lifa í gegnum þá sem fengu heiðurinn á að þekkja þig. Ég elska þig bróðir og mun sakna þín að eilífu. Hugur minn, bænir og hjarta er hjá fjölskyldu þinni. Hvíldu í friði Balders,“ skrifaði Alli undir nokkrar vel valdnar myndir af þeim félögum.
Athugasemdir