Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 15. janúar 2023 22:32
Brynjar Ingi Erluson
Neville: Arsenal mun ekki vinna úrvalsdeildina
Gary Neville
Gary Neville
Mynd: Getty Images
Erling Haaland þarf að finna taktinn og þegar það gerist mun Man City komast á skrið
Erling Haaland þarf að finna taktinn og þegar það gerist mun Man City komast á skrið
Mynd: Getty Images
Mikel Arteta hefur gert geggjaða hluti með Arsenal
Mikel Arteta hefur gert geggjaða hluti með Arsenal
Mynd: EPA
Gary Neville, sparkspekingur Sky Sports, telur að Arsenal eigi ekki eftir að vinna ensku úrvalsdeildina í ár.

Arsenal er komið með átta stiga forystu á toppnum eftir 2-0 sigurinn á Tottenham en liðið er að spila flæðandi fótbolta og virðist ekkert lið geta stöðvað lærisveinar Mikel Arteta.

Neville er samt ekki sannfærður um að Arsenal endi uppi sem sigurvegari deildarinnar.

Hann er viss um að Manchester City eigi eftir að komast á skrið og vinna enn einn titilinn.

„Ég væri frekar til í að Arsenal vinni úrvalsdeildina en Manchester City. Það væri algjörlega stórkostlegt fyrir ensku úrvalsdeildina. Við höfum séð City rúlla upp deildinni, fyrir utan Liverpool, yfir síðustu fimm ár. Það að Arsenal gæti komið og unnið hana gefur deildinni mikið og gerir hana frábæra,“ sagði Neville.

„Ég myndi elska það ef Man Utd myndi vinna hana en ég held að það gerist ekki á þessu tímabili,“ bætti Neville við.

„Raunveruleikinn er sá að á einhverjum tímapunkti mun Man City komast á skrið og um leið og það gerist þá eiga þeir eftir að spila tvisvar við Arsenal. Er Haaland ekki að fá þjónustuna þarna frammi. Þarf hann að gera meira eða bíða þolinmóður?“

„Ef Haaland kemur sér í gang og vélin byrjar að malla þá mun Man City vinna deildina. Ef þeir ná að skerpa varnarleikinn og fá Ruben Dias til baka, sem þeir þurfa, þá mun þessi deild vinnast.“

„Á einhverjum tímapunkti mun Arsenal ganga í gegnum erfiðan kafla á tímabilinu. Er það mögulegt fyrir Arsenal að halda áfram á sama róli? Ég held ekki. Ef liðið gerir tvö jafntefli og tapar einum í þriggja leikja törn þá hverfur forystan og öll liðin komin í baráttuna. Það er nákvæmlega það sem ég held að gerist og við munum sjá hefðbundið tímabil í úrvalsdeildinni þar sem eitt lið dettur út og liðið dregst aðeins aftur. Þetta tímabil mun samt vera mun betra fyrir Arsenal en ég gat ímyndað mér.“

„Ég veit að stuðningsmenn Arsenal eiga eftir að hrauna yfir mig eins og þeir hafa gert síðustu fjóra mánuði. Ég vona innilega að þið vinnið þetta! Það verður erfitt fyrir ungan stjóra eins og Mikel Arteta að sigrast á Conte, Klopp, Ancelotti, Guardiola og Mourinho mótuninni og verða einn af þessum ofurstjórum. Það er ekki hægt!“

„Ef Arteta vinnur úrvalsdeildina á þessu tímabili þá verður hann einn af þeim. Hann er að gera það hvort sem er því fótboltinn sem liðið hans spilar er frábær. Hann þarf samt að vinna þennan titil. Þeir sem vinna Meistaradeildina og ensku úrvalsdeildina eru ofurstjórar, þannig ég vona að Arsenal taki þennan titil, það er að segja ef Man Utd gerir það ekki — sem verður að teljast ólíklegt, en ég væri svakalega til í það fyrir úrvalsdeildina. Man City hefur unnið of marga titla fyrir minn smekk,“
sagði Neville í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner