Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   fös 15. mars 2024 18:18
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hafði áhyggjur af Hákoni Arnari - „Kannski var gott fyrir hann að spila ekki"
Icelandair
Gat ekki spilað í nóvember vegna meiðsla. Hareide fylgdist með honum á landsliðsæfingu.
Gat ekki spilað í nóvember vegna meiðsla. Hareide fylgdist með honum á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hákon er gríðarlega skapandi sóknarsinnaður leikmaður og öflugur að pressa.
Hákon er gríðarlega skapandi sóknarsinnaður leikmaður og öflugur að pressa.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristian Nökkvi er byrjunarliðsmaður hjá Ajax.
Kristian Nökkvi er byrjunarliðsmaður hjá Ajax.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hákon Arnar Haraldsson kom einungis við sögu í einum leik af fimm hjá liði sínu Lille frá 14. janúar til 7. febrúar. Hann var ónotaður varamaður gegn Lorient, byrjaði gegn Racing CFF í bikarnum og skoraði eina markið í bikarsigri en var svo þrjá leiki í röð ónotaður varamaður.

Í kjölfarið hefur hann komið við sögu í sjö leikjum í röð og byrjað síðustu fimm. Í þeim fimm leikjum hefur hann skorað eitt mark og lagði svo upp mark í Evrópuleik gegn Sturm Graz í gær.

Hákon Arnar er í landsliðshópnum fyrir komandi verkefni og var landsliðsþjálfarinn Age Hareide spurður út í leikmanninn.

„Ég er svo ánægður að Hákon er kominn aftur í liðið hjá Lille. Ég hafði áhyggjur og ræddi við hann þegar hann var ekki að spila. Ég fann það á honum að hann var dapur yfir því að vera ekki að spila og það hafði áhrif á hann."

„Hann var að glíma við smá meiðsli í nóvember, var ekki með okkur í Portúgal vegna þeirra meiðsla. Kannski var gott fyrir hann að spila ekki í nokkrum leikjum. Þegar hann kom til baka þá skoraði hann sitt fyrsta mark í frönsku deildinni. Hann er leikmaður sem er alltaf að, ég er mjög hrifinn af honum. Hann er góður á boltann og býr til með hlaupum sínum. Hann leggur mikið á sig þegar hann spilar,"
sagði Hareide.

Leikmaður sem gerir fá mistök
Hareide var sömuleiðis spurður út í Kristian Nökkva Hlynsson sem er byrjunarliðsmaður hjá hollenska stórliðinu Ajax.

„Kristian er að vera betri og betri hjá Ajax. Það var erfiður leikur í gær í Birmingham (þar sem Aston Villa vann öruggan sigur í leik liðanna Sambandsdeildinni). En hann hefur gert vel. Ég sá hann spila í Noregi, spilaði þar á gervigrasinu."

„Hann er leikmaður sem gerir marga hluti rétt, mjög klár með boltann, gerir ekki mörg mistök, er stöðugur þegar kemur að sendningum."

„Ég er mjög ánægður að við séum með þessa ungu leikmenn að gera vel því að kynslóðaskipti eru óumflýjanleg, fyrr eða síðar verða þau. Þeir eldri verða enn eldri og þeir yngri verða betri, eldri og reyndari. Á sama tíma er ég ánægður að vera með hluta af eldri kynslóðinni með í hópnum því þeir hafa spilað marga leiki og það mun hjálpa þeim yngri,"
sagði Hareide að lokum.

Íslenska landsliðið mætir Ísrael í Búdapest í undanúrslitum umspilsins um sæti í lokakeppni EM 2024 þann 21. mars, fimmtudagskvöldið í næstu viku.

Sigurvegarinn í þeim leik mætir annað hvort Bosníu-Hersegóvínu eða Úkraínu 26. mars í hreinum úrslitaleik um sæti í lokakeppni EM í Þýskalandi.

Athugasemdir
banner