Það voru nokkrir Íslendingar sem komu við sögu í leikjum dagsins í Skandinavíu, þar sem Stefán Teitur Þórðarson var í byrjunarliði Silkeborg í tapi á heimavelli gegn Nordsjælland.
Stefán Teitur lék allan leikinn í 0-1 tapi en Silkeborg siglir lygnan sjó í efstu deild danska boltans, á meðan Nordsjælland er í harðri baráttu um Evrópusæti.
Í sænska boltanum kom Andri Fannar Baldursson við sögu í 3-0 tapi Elfsborg á útivelli gegn Hammarby en honum var skipt inn af bekknum í stöðunni 1-0, þegar hálftími var eftir af venjulegum leiktíma.
Andra tókst ekki að koma í veg fyrir tap og er Elfsborg aðeins með fjögur stig eftir þrjár fyrstu umferðir nýs deildartímabils.
Daníel Tristan Guðjohnsen var ekki í hóp hjá ríkjandi meisturum í Malmö vegna meiðsla, en Malmö er með fullt hús stiga og markatöluna 11-1 eftir þægilegan sigur í dag.
BK Häcken hafði þá betur í sjö marka leik gegn Brommapojkarna til að tryggja sinn fyrsta sigur á tímabilinu, en Valgeir Lunddal Friðriksson var ekki með.
Að lokum er komið að norska boltanum þar sem Álasund steinlá á heimavelli gegn Lyn í næstefstu deild.
Heimamenn í Álasundi misstu leikmann af velli með rautt spjald eftir 35 mínútna leik og réðu ekki við ellefu leikmenn Lyn í kjölfarið.
Davíð Snær Jóhannsson kom inn af bekknum á 75. mínútu í stöðunni 0-2 en tókst ekki að bjarga málunum.
Bæði lið eiga fjögur stig eftir þrjár umferðir á nýju deildartímabili, en Álasund ætlar sér upp í efstu deild.
Óskar Borgþórsson var þá ekki í hóp er Sogndal gerði 1-1 jafntefli á útivelli gegn Asane.
Silkeborg 0 - 1 Nordsjælland
Hammarby 3 - 0 Elfsborg
Varnamo 0 - 4 Malmo
Hacken 4 - 3 Brommapojkarna
Aalesund 0 - 3 Lyn
Asane 1 - 1 Sogndal
Athugasemdir