Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 15. júní 2021 20:10
Fótbolti.net
Einkunnir Íslands: Glódís best og kraftur í Karó í lokin
Icelandair
Glódís Perla var best í íslenska liðinu í dag
Glódís Perla var best í íslenska liðinu í dag
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Karólína óx eftir því sem leið á leikinn og skoraði fallegt mark
Karólína óx eftir því sem leið á leikinn og skoraði fallegt mark
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland vann 2-0 sigur á Írlandi í síðari vináttuleik þjóðanna. Eftir slakan fyrri hálfleik gerði íslenska liðið vel í þeim síðari og uppskar góðan sigur. Hér að neðan má sjá einkunnagjöf Fótbolta.net eftir leikinn.

Cecilía Rán Rúnarsdóttir – 7
Það reyndi ekki mikið á markvörðinn unga í dag en hún var einbeitt og steig vel inn í þegar á þurfti að halda. Átti eina góða vörslu undir lok fyrri hálfleiks, var örugg í föstum leikatriðum og óhrædd að koma út í teiginn sinn.

Hafrún Rakel Halldórsdóttir - 6
Hægri bakvörðurinn var kröftug og spræk fram á við en lét stundum grípa sig úr stöðu til baka. Heldur áfram að bæta sig með hverjum landsleiknum en leikurinn í kvöld var hennar fjórði.

Glódís Perla Viggósdóttir - 8
Kletturinn í öftustu línu Íslands. Var örugg og yfirveguð að vanda. Sterk í návígum, spilaði vel út úr vörninni og hélt skipulaginu þéttu aftast.

Ingibjörg Sigurðardóttir - 6
Gerði vel í hjarta íslensku varnarinnar en fór útaf í hálfleik.

Hallbera Guðný Gísladóttir - 6
Örugg til baka en fór minna fram á við en oft áður og náði ekki að skapa mikla hættu með sínum öfluga vinstri fæti.

Alexandra Jóhannsdóttir - 5
Alexandra fann ekki taktinn í fyrri hálfleik frekar en flestar í íslenska liðinu. Fór útaf í hálfleik.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir - 6
Það var mikil vinnsla og barátta í fyrirliðanum að vanda. Spilaði betur í síðari hálfleik en þeim fyrri, rétt eins og allt íslenska liðið.

Dagný Brynjarsdóttir - 7
Það var kraftur í Dagnýju og sýnilegt hversu sterka nærveru hún hefur á vellinum. Alltaf sterk í loftinu og náði að spila samherja sína í fínar stöður.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir - 7
Það fór lítið fyrir Karólínu Leu framan af en hún minnti rækilega á sig undir lokin. Þá óx henni ásmegin og kom í hana aukakraftur sem skilaði sér meðal annars í gullfallegu marki sem innsiglaði 2-0 sigur Íslands.

Sveindís Jane Jónsdóttir - 6
Það var gott að sjá Sveindísi snúa aftur í landsliðsbúninginn. Það vantaði aðeins uppá að hún næði að sýna gæðin sín en formið er allt að koma eftir meiðsli.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir - 6
Skoraði fyrra mark Íslands þegar hún pressaði markvörð Íra. Fékk tvö önnur fín færi til að skora en nýtti þau ekki. Fékk annars ekki úr mjög miklu að moða, sérstaklega ekki í fyrri hálfleik.

Varamaður sem fær einkunn:

Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir - 7
Kom inná í hálfleik og með henni kom kraftur. Hafði góð tök á miðsvæðinu og dreifði spili íslenska liðsins. Átti stoðsendinguna í marki Íslands.

Guðrún Arnardóttir – 6
Það reyndi lítið á Guðrúnu en hún las leikinn vel þegar á þurfti að halda og steig örugglega inn í.

Aðrar spiluðu ekki nóg til að fá einkunn.
Athugasemdir
banner