„Miðað við spilamennskuna í fyrri hálfleik var mjög gott að ná í stig," sagði Dragan Stojanovic þjálfari Dalvíkur/Reynis eftir markalaust jafntefli gegn Keflavík á Dalvík í dag.
Lestu um leikinn: Dalvík/Reynir 0 - 0 Keflavík
„Við vorum betri manni færri, við byrjum kannski næsta leik manni færri strax," sagði Dragan léttur í bragði.
„Keflavík er gott lið, þeir vinna síðasta leik 5-0 en þetta er kannski með verri fyrri hálfleikjum sem við höfum spilað síðasta eina og hálfa árið."
Dragan var mjög ósáttur með Amin Guerrero Touiki leikmann liðsins sem fékk að líta rauða spjaldið fyrir að kýla Gunnlaug Fannar Guðmundsson leikmann Keflavíkur í punginn.
„Þetta má ekki gerast. Þetta kom líka fyrir á móti ÍR, við spiluðum 60 mínútur manni færri eins og í dag. Ég er þekktur fyrir það að mín lið fái ekki oft rautt. Stundum gerist þetta og maður skilur þetta ekki. Ég talaði svolítið mikið eftir leikinn, þetta er bannað eins og einhver myndi segja," sagði Dragan.