Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   þri 15. nóvember 2022 18:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Íslenskt stuðningsfólk Man Utd um Ronaldo: Ljótur endir á sambandinu
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo.
Mynd: Getty Images
Anna María Baldursdóttir.
Anna María Baldursdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Gunnlaugsson.
Arnar Gunnlaugsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ronaldo er einn besti fótboltamaður sögunnar.
Ronaldo er einn besti fótboltamaður sögunnar.
Mynd: Getty Images
Halldór Marteinsson.
Halldór Marteinsson.
Mynd: Úr einkasafni
Ronaldo var líklega um skeið besti leikmaður í heimi þegar hann lék með Man Utd frá 2003 til 2009. Hann er það ekki í dag, enda 37 ára gamall.
Ronaldo var líklega um skeið besti leikmaður í heimi þegar hann lék með Man Utd frá 2003 til 2009. Hann er það ekki í dag, enda 37 ára gamall.
Mynd: Getty Images
Erik ten Hag horfir á Ronaldo.
Erik ten Hag horfir á Ronaldo.
Mynd: EPA
Ronaldo kemur inn á sem varamaður í leik á tímabilinu. Hann hefur verið mikið á bekknum, sem er eitthvað sem hann getur ekki sætt sig við.
Ronaldo kemur inn á sem varamaður í leik á tímabilinu. Hann hefur verið mikið á bekknum, sem er eitthvað sem hann getur ekki sætt sig við.
Mynd: EPA
Ronaldo pirraður.
Ronaldo pirraður.
Mynd: EPA
Íþróttafréttamaðurinn Runólfur Trausti Þórhallsson tekur hér viðtal við Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Íþróttafréttamaðurinn Runólfur Trausti Þórhallsson tekur hér viðtal við Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hefur Ronaldo spilað sinn síðasta leik fyrir Man Utd?
Hefur Ronaldo spilað sinn síðasta leik fyrir Man Utd?
Mynd: Getty Images
Portúgalska ofurstjarnan Cristiano Ronaldo er klárlega umtalaðasti fotboltamaður í heimi þessa stundina eftir viðtal sem hann fór í hjá fjölmiðlamanninum umdeilda Piers Morgan.

Ekki er búið að birta viðtalið í heild sinni en bútar úr því hafa verið í dreifingu og er mikil umræða um það sem hefur komið fram.

Ronaldo hefur gagnrýnt Manchester United harðlega fyrir sín vinnubrögð, stjórann Erik ten Hag sem og goðsagnir á borð við Wayne Rooney og Gary Neville.

Það er mikil umræða um þetta viðtal og þá parta sem eru komnir út. Margir hafa látið Ronaldo heyra það. Við ákváðum að spyrja íslenska stuðningsmenn Manchester United út í þeirra álit á viðtalinu og hvort Ronaldo eigi einhverja framtíð hjá félaginu eftir það. Fer þetta illa með arfleifð hans hjá United? Hér fyrir neðan eru svörin:

Anna María Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar:
Mér finnst þetta afskaplega skrýtin tímasetning á þessu viðtali; kemur í raun eins og þruma úr heiðskíru lofti. Leikmenn og þjálfarar fá þetta í andlitið beint eftir sigur gegn Fulham. Ég veit ekki alveg hvað Ronaldo er að reyna ná fram með þessu viðtali. Hvort hann vilji losna strax eða verja sjálfan sig vegna slakrar frammistöðu á tímabilinu.

Mér finnst ólíklegt að hann muni spila mikið meira fyrir United þangað til hann fer, sem verður að teljast líklegt að gerist í janúar. Held að Ten Hag hafi litla þolinmæði fyrir þessu og erfitt að heyra fyrir leikmenn liðsins sem örugglega líta margir upp til hans.

Þar sem hann er legend hjá félaginu setur þetta klárlega svartan blett á arfleifð hans hjá United. Að ferill hans hjá United endi með þessu móti er ekki drauma endirinn sem stuðningsmenn vonuðust eftir þegar hann kom til liðsins í fyrra.

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings:
Þótt enginn sé stærri en félagið þá hafa sumir leikmenn aðeins meiri 'status' til að segja meira en aðrir. Þeir verða þó alltaf að gæta þess að fara ekki yfir strikið sama hversu erfið staða viðkomandi leikmanns er og halda sinni fagmennsku.

Í þessu tilviki er erfitt að réttlæta þetta viðtal og í raun hef ég aldrei séð svona hjá eins virtum leikmanni.

Í raun byrjaði þetta þetta þegar hann neitaði að fara inn á gegn Tottenham sem er eitthvað sem enginn leikmaður í sögu United hefur gert. Þá varð eiginlega engin leið til baka þó Ten Hag reyni að lappa upp á sambandið með því að gera hann að fyrirliða stuttu seinna. Sem þjálfari þá finnst manni það ekki Ronaldo til framdráttar að henda í svona viðtal. Tímasetningin er útpæld með HM á næsta leyti. Samningnum verður rift og Ronaldo er með annað lið tilbúið á kantinum sem spilar í Meistaradeildinni. Þetta er alveg klárt.

Til að eiga svona feril eins og hann hefur átt, þá þarftu að hafa ákveðið egó. Þannig að vissu leyti kemur þetta ekki á ovart að svona 'outburst' komi frá honum - sumir segja að þetta gerist út af þvi að ferillinn sé í dvínun og það er erfitt hjá svona leikmönnum að sjá að allt snúist ekki lengur um þá. Í raun að þá er sama egó sem kom honum upp á hæstu hæðir að ýta undir pirring núverandi aðstæðna og hvar hans ferill er staddur í dag.

En stöldrum líka við og hlustum á það sem hann hefur að segja. Ég hef áhuga á því sem stuðningsmaður, sem í raun og veru er allt satt og rétt. Í hvaða heimi hélt félag eins og United að Ole Gunnar Solskjær og Ralf Rangnick væru svarið til að keppa við Guardiola og Klopp. Æfingaaðstaða félagsins er langt fra 'standard' toppliða og fortíðarrómantíkin er mikil. Síðan lika eftir að hafa sjálfur kynnst veikindum barna sinna og hversu mikinn stuðning ég fékk frá Víkingum vs það sem hann upplifði og lýsir í viðtalinu, hjá sínu félagi að þá skilur maður pirringinn.

Í stuttu máli þá fyrir okkur stuðningsmenn United að þá er þetta hið sorglegasta mál. Ronaldo mun aldrei spila aftur fyrir liðið og í raun ekki eiga afturkvæmt. Vonandi vekur gagnrýnin suma upp af værum blundi þó það væri ekki nema til þess að eitthvað gott komi út úr þessu máli.

Ég ætla að halda mig við þann Ronaldo sem var hjá okkur 2004-2009.

Daníel Smári Magnússon, Bolurinn:
Vandræðalegt útspil af hálfu Ronaldo og sýnir okkur fullkomlega hvað er forgangsatriði númer eitt, tvö og þrjú hjá Ronaldo: Cristiano Ronaldo.

Tímasetningin á viðtalinu er engin tilviljun og mér finnst hann sýna mikinn heigulshátt, vitandi það að hann þarf ekki að vera nálægt Erik ten Hag eða megninu af liðsfélögum sínum í kjölfar þess - þar sem að HM er rétt handan við hornið.

Hann er með hörmuleg spil á hendi þar sem að Ten Hag hefur farið virkilega vel af stað, er vel liðinn af leikmönnum, aðdáendum og stjórn. Það virðist hafa sært litla egóið hans Ronaldo alveg ofboðslega mikið og hann virðist á engan hátt tilbúinn að sætta sig við það að á endanum þá grípur aldurinn í afturendann á þér. Þrjú mörk í 16 leikjum og tvö af þeim gegn stórveldinu Sheriff Tiraspol.

Ronaldo mætti ekki á réttum tíma í undirbúningstímabilið og daðraði við hvern einasta stórklúbb í Evrópu í allt sumar, en var jafn eftirsóttur og COVID-19. Hann kom þar af leiðandi algjörlega formlaus inn í tímabilið og spilaði illa þegar að hann fékk mínútur. Toppaði sig svo alveg þegar að hann strunsaði til búningsklefanna stuttu fyrir leikslok þegar United spilaði besta leik tímabilsins gegn Tottenham og dreif sig burt áður en skælbrosandi leikmenn mættu inn í klefa. Það kom svo á daginn að hann hafði neitað að koma inn á! Mætir svo í þetta viðtal og segist ekki bera virðingu fyrir stjóranum - sem að notabené fyrirgaf þessa vitleysu með léttu höggi á handarbakið, sagði málið úr sögunni og byrjaði með hann í næstu leikjum. Það skilaði litlu sem engu og svo virðist sem að síðasti leikur hans fyrir liðið verði 3-1 tap gegn Aston Villa þar sem að leiðtoginn mikli fékk fyrirliðabandið frá stjóranum, sem að hann segist enga virðingu bera fyrir. Flottur.

Hann lét eins og algjört gerpi þegar að hann vildi komast til Madrid 2008, en þá var það látið eftir honum þar sem að hann var einn af bestu leikmönnum heimsins. Í dag þá skiptir hann Ten Hag og liðið allt bara nákvæmlega engu máli, þar sem að hann er eiginlega "non-factor" í liðinu og það spilar talsvert betur án hans. Þetta er ljótur endir á sambandi Ronaldo og Manchester United og framkoma merkikertisins mun án alls vafa skaða arfleifð hans hjá félaginu.

Halldór Marteinsson, í ritstjórn Rauðu Djöflana:
Sjálfsagt munu einhverjir reyna að mála þá mynd af þessu að þarna sé Ronaldo mættur til að gera Manchester United svaka greiða með því að segja hlutina eins og þeir eru og gagnrýna það sem er löngu orðið tímabært að gagnrýna. Það er líklega sú mynd sem hann vill sjálfur mála af þessu viðtali. En það bara segir ótrúlega mikið þegar Ronaldo ákveður að fara til Piers Morgan, af öllum, til að fá útrás fyrir gremjuna. Það í bland við hegðun Ronaldo síðustu vikur og mánuði málar allt aðra mynd af þessu. Sú mynd er af grenjandi frekjuskjóðu sem slær frá sér af því hann fær ekki að hafa gjörsamlega allt eftir sínu höfði og það er ekki allt teiknað upp til að hann fái að spila sem mest og skora fleiri mörk.

Það getur enginn sagt mér að Cristiano Ronaldo hafi enga aðra rödd og engan annan farveg fyrir uppbyggilega gagnrýni á innviði félagsins og æfingaaðstöðu en að fara í 90 mínútna grenjuviðtal við Piers Morgan.

Ef hann spilar eina mínútu í viðbót fyrir Manchester United þá verð ég mjög hissa. Hann átti aldrei að koma aftur til United. Það var alveg vitað hvers konar farangur fylgdi honum sem persónu og að hann væri ekki lengur sami leikmaður inni á vellinum. Hann hefði bara þess vegna mátt enda hjá Manchester City eða Chelsea. Er líklegt að hann væri enn að spila á fullu hjá þeim félögum þessa dagana?

Hvað arfleifð hans hjá félaginu varðar þá fer sagan yfirleitt mjúkum höndum um stærstu stjörnurnar. Það er eðlileg og skiljanleg gremja út í hann núna en þegar líður á mun fókusinn á hans feril með Manchester United væntanlega alltaf vera á árin 2003 til 2009, sama hvað annað hann hefur á samviskunni.

Orri Freyr Rúnarsson, X-ið 977:
Eftir viðtalið hjá Piers Morgan er alveg ljóst að CR7 á enga framtíð lengur hjá Man Utd. Ég held að þetta hafi verið algjör “hail mary” tilraun hjá honum til að tryggja að félagið rifti samningnum við hann, enda getur enginn þjálfari spilað leikmanni sem talar svona opinberlega. Stóra spurningin er hvort að eitthvað félag vilji fá hann til sín núna eftir HM. Þau félög sem uppfylla kröfur Ronaldo um aðbúnað og metnað eru einfaldlega með betri framherja en hann sjálfan.

Þrátt fyrir að vera einn sá allra besti sem hefur spilað með Man Utd mun þetta eflaust hafa áhrif á arfleifð hans hjá félaginu. Hann bendir réttilega á að félagið hafi staðnað á síðustu árum en vandamálið er að þeir sem bera ábyrgð á því, fyrir utan eigendur liðsins, eru horfnir á braut og Ten Hag, Richard Arnold og John Murtough virðast hafa metnað til að taka þessa hluti í gegn hjá liðinu.

Ronaldo veit að hann er ekki fyrsti kostur hjá Ten Hag, leikstíllinn hentar honum einfaldlega ekki og því langbest fyrir báða aðila að Ronaldo leiti á önnur mið. Þar sem Ronaldo er búinn að vera stærsta stjarna fótboltaheimsins í næstum því tvo áratugi getur hann einfaldlega ekki sætt sig við að vera ekki fyrsti valkostur hjá liði sem er að ströggla við að berjast um Meistaradeildarsæti, hvað þá að hann sé gerður að blóraböggli fyrir slæmt gengi liðsins.

Ronaldo veit vel að hann er stærri en félagið á mörgum sviðum, hann er til dæmis með nærri 450 milljónum fleiri á Instagram heldur en Man Utd. Viðtalið snérist um að sannfæra hluta þeirra fylgjenda að hann sé ekki vandamálið, heldur þjálfarinn og félagið. Mögulega er Ronaldo að mistúlka hversu margir aðdáendur liðsins muni standa með þjálfaranum í þessum deilum enda hefur umboðsmaður Ronaldo og starfslið hans passað sig á að hlífa honum við allri gagnrýni.

Það hefði verið mun áhugaverðara að sjá Ronaldo tjá sig um þessa hluti hjá betri fjölmiðlamanni en Piers Morgan, en Morgan vaknar með hann beinstífan alla morgna hugsandi um síðasta SMS frá CR7. Það hefði nefnilega verið áhugavert að heyra Ronaldo útskýra kröfuna um að yfirgefa félagið rétt fyrir pre-season, af hverju hann fór í hálfleik í sínum fyrsta æfingaleik, af hverju hann neitaði að koma inn á gegn Spurs og af hverju hann yfirgaf Old Trafford fyrir leikslok. Piers virðist heldur ekki hafa spurt Ronaldo hvernig hann geti talað um virðingarleysi á sama tíma og Ten Hag lét hann bera fyrirliðabandið í sínum síðasta leik fyrir félagið.

Ten Hag ætti að geta sofið alveg rólegur þangað til að glugginn opnar í janúar, miðað við fyrstu viðbrögð standa flestir stuðningsmenn þétt við bakið á honum enda sjá allir að liðið spilar einfaldlega betur án CR7. Ég útiloka þó ekki að Ten Hag verði gagnrýndur ef liðinu fer að ganga verr eftir áramót og enginn Ronaldo til að snúa genginu við.

Að lokum þá verður ótrúlega áhugavert að fylgjast með Ronaldo á HM. Hann hefur í fyrsta sinn verið gagnrýndur í Portúgal fyrir frammistöðu sína með landsliðinu í síðustu leikjum, ef hann byrjar illa í fyrstu leikjum á HM og missir jafnvel sæti í byrjunarliðinu gæti hann þurft að græja flugmiða aðra leið til Sádí-Arabíu og klára ferilinn þar.

Runólfur Trausti Þórhallsson, íþróttafréttamaður á Vísi:
Þetta viðtal er svo sem búið að liggja í loftinu síðan Ronaldo hótaði því í sumar. Það virðast fæst kippa sér upp við þetta og í raun held ég að flest stuðningsfólk Man Utd bíði eftir að Ronaldo fari frá félaginu. Ef umræðan í kringum Paul Pogba var slæm og truflandi þá er þetta á allt öðru 'level-i'.

Þó Ronaldo muni alltaf eiga sitt stuðningsfólk og nafn hans verði eflaust enn sungið á Old Trafford um komandi ár held ég að flest öll sem hafi hundsvit á fótbolta átti sig á því að Man Utd gerði mistök með því að fá hann til baka og að hans tími sé liðinn. Það segir sitt að ekkert lið vildi fá hann í sumar þó svo að Jorge Mendes hafi farið í Evróputúr í von um að koma Ronaldo í Meistaradeildina.

Hvað varðar orðspor hans þá held ég að hann hafi verið kominn langleiðina með því að henda því í ruslið. Hann verður elskaður og dáður af sama fólki og gerði það enn á meðan sum okkar eru enn á því að það hefði bara verið fínt að hann hefði farið í Man City. Og það að hann hafi ætlað í Man City upprunalega segir allt sem við þurfum að vita um Ronaldo.

Sjá einnig:
Ten og leikmennirnir vonsviknir með Ronaldo
Hafði aldrei heyrt nafn Rangnick getið áður en hann tók við Man Utd
Hætti við að fara til Man City eftir símtal frá Ferguson
Carragher: 99 prósent af stuðningsfólki Man Utd mun styðja Ten Hag
Öfundsjúkur Rooney - „Ætla ekki að segja að ég líti betur en hann en það er samt sannleikurinn
Ronaldo opnar sig í viðtali við Piers Morgan: Man Utd sveik mig og gerði mig að svörtum sauð
Það eigi að reka Ronaldo - „Borga honum 600 þúsund pund á viku"
Ronaldo segir menn hjá United hafa efast um að dóttir hans væri raunverulega veik
Ronaldo: Eigendunum er alveg sama um félagið
Ronaldo sár út í Neville og Rooney - „Þeir eru ekki vinir mínir"
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner