þri 16. febrúar 2021 21:52
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Meistaradeildin: Stórkostleg staða Liverpool og PSG
Liverpool er í frábærum málum.
Liverpool er í frábærum málum.
Mynd: Getty Images
Mane skoraði annað mark Liverpool.
Mane skoraði annað mark Liverpool.
Mynd: Getty Images
PSG er enn í betri málum eftir magnaða frammistöðu hjá þessum manni; Kylian Mbappe.
PSG er enn í betri málum eftir magnaða frammistöðu hjá þessum manni; Kylian Mbappe.
Mynd: Getty Images
Það er óhætt að segja að Liverpool og Paris Saint-Germain séu í góðum málum eftir kvöldið í Meistaradeildinni.

Það hefur ekki gengið vel hjá Liverpool í ensku úrvalsdeildinni og hefur Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, opinberlega gefist upp á að verja Englandsmeistaratitilinn. Það eru hins vegar möguleikar í Meistaradeildinni.

Liverpool lék útileik sinn við RB Leipzig í Ungverjalandi í kvöld, en ekki var ákjósanlegt að spila leikinn í Þýskalandi út af reglum í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.

Englandsmeistararnir spiluðu frábæran leik og voru óheppnir að leiða ekki í hálfleik. Roberto Firmino skoraði mark í fyrri hálfleiknum sem var dæmt af þar sem boltinn var farinn út af að mati dómarans. Það var mjög tæpt.

„Markið mun koma í seinni hálfleiknum hjá Liverpool ef þeir halda sama hraða. Leipzig er í vandræðum og þeir vita ekki hvað þeir eiga að gera," sagði Stephen Warnock, fyrrum leikmaður Liverpool, á BBC í hálfleik og hann hafði rétt fyrir sér. Markið átti eftir að koma, en ekki bara eitt.

Mohamed Salah kom Liverpool yfir. Hann komst inn í slaka sendingu frá Marcel Sabitzer, fyrirliða Leipzig, og kláraði færið. Sabitzer greip um höfuð sitt áður en Salah kláraði færið, hann vissi hvað væri að fara að gerast. Stutt síðar skoraði Sadio Mane annað mark Liverpool eftir að Nordi Mukiele missti klaufalega af boltanum. Þetta voru tvö afskaplega auðveld mörk fyrir Salah og Mane sem eru með þeim betri í heiminum í að klára færi.

Eftirleikurinn var nokkuð auðveldur fyrir Liverpool og lokatölur 2-0 í þessum leik. Seinni leikurinn fer fram á Anfield 10. mars. Liverpool er komið með annan fótinn og nokkrar tær inn í 8-liða úrslitin.

PSG kom til baka gegn Barcelona
Á Nývangi í Barcelona fór Paris Saint-Germain með gríðarlega flottan sigur af hólmi. PSG er ekki í síðri málum en Liverpool þrátt fyrir að það hafi vantað Brasilíumanninn Neymar í þeirra lið. PSG er í betri málum satt best að segja.

Fyrri hálfleikurinn var frábær skemmtun en Lionel Messi kom Börsungum yfir úr vítaspyrnu á 27. mínútu. Það var mikið tempó í leiknum og stuttu síðar jafnaði Kylian Mbappe fyrir PSG. Hann sýndi mikla fótafimi í teignum og kláraði mjög vel.

Mbappe var aftur á ferðinni fyrir PSG í síðari hálfleiknum þegar hann skoraði á 65. mínútu og stuttu síðar gerði lánsmaðurinn frá Everton, Moise Kean, þriðja mark Parísarliðsins.

Mbappe gæti verið sá leikmaður sem tekur við í að vera besti leikmaður veraldar þegar Messi og Ronaldo hætta. Hann fullkomnaði þrennu sína áður en flautað var til leiksloka. Magnaður leikur hjá þessum magnaða leikmanni sem er aðeins 22 ára gamall. Barcelona, sem hefur verið á góðu skriði að undanförnu, verður að öllum líkindum ekki á meðal liða í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar eftir slakan varnarleik í kvöld.

RB Leipzig 0 - 2 Liverpool
0-1 Mohamed Salah ('53 )
0-2 Sadio Mane ('58 )

Barcelona 1 - 4 Paris Saint Germain
1-0 Lionel Andres Messi ('27 , penalty goal)
1-1 Kylian Mbappe ('32 )
1-2 Kylian Mbappe ('65 )
1-3 Moise Kean ('70 )
1-4 Kylian Mbappe ('85 )
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner