Rúben Amorim þjálfari Manchester United var svekktur eftir 1-0 tap á útivelli gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Hann telur sína menn hafa átt fínan leik gegn flottum andstæðingum en eina vandamálið var að þeim tókst ekki að skora þrátt fyrir tækifærin sem þeir fengu.
„Eini munurinn á liðunum í dag var þetta mark. Þeir skoruðu en ekki við. Við fengum góð færi alveg eins og þeir en gátum bara ekki skorað," sagði Amorim, sem snéri sér svo að meiðslavandræðunum sem eru að herja á Rauðu djöflana. Liðið var án átta leikmanna vegna meiðsla, en aðeins fimm voru fjarverandi úr leikmannahópi Tottenham.
„Við þurfum að fá leikmenn aftur úr meiðslum og ég held að nokkrir geti verið klárir í slaginn fyrir næsta leik. Við þurfum að klára þetta tímabil saman og undirbúa okkur svo fyrir næstu leiktíð. Meiðslin hafa mikil áhrif á allt leikskipulagið okkar, leikmenn eru að spila úr stöðum og við erum bara með unga leikmenn á bekknum."
Amorim hefur byrjað afar illa við stjórnvölinn hjá Man Utd og segist hann ekki vera smeykur um að missa starfið sitt.
„Ég skil stuðningsfólk og fjölmiðla. Ég hata að tapa, það er ömurleg tilfinning. Ég er hérna til að hjálpa leikmönnunum mínum og ég hef fulla trú á starfinu sem ég er að sinna hér. Ég er ekki smeykur um að missa starfið mitt, það sem ég hef áhyggjur af er stöðutaflan í deildinni. Ég vil byrja að sigra fótboltaleiki. Þetta er mjög erfitt, en ég skil að við getum ekki breytt öllu á einni viku eða einum mánuði."
Amorim ræddi einnig um Amad Diallo og segir að liðið muni sakna hans sárlega.
„Ég býst við að Amad verði frá út tímabilið og það er líka erfitt. Síðan ég kom er hann leikmaðurinn sem hefur skapað mest fyrir okkur."
Athugasemdir