„Svekkjandi tap en svo sem ekkert meira en við áttum skilið. Fyrri hálfleikurinn hjá okkur var dapur, seinni hálfleikur var skárri og við vorum líklegri að ná inn marki en svo endar það þannig þegar þú sækir stíft að þá geturðu fengið mark í bakið og það gerðist, tvö stykki þannig. Þetta lítur kannski verr út en hvernig leikurinn þróaðist en fyrri hálfleikurinn var ekki góður," sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Blika, í viðtali eftir 3-0 tap gegn Víkingum.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 3 - 0 Breiðablik
Óskar talar um lélegan fyrri háfleik, hvað var það sem fór úrskeiðis þar?
„Mér fannst vanta orku, mér fannst vanta grimmd, mér fannst vanta ákveðni og áræðni. Við töpuðum eiginlega öllum boltum á miðjunni og um leið við töpuðum honum á miðjunni þá ná þeir að splundra okkur. Við vorum í eltingaleik stórum hluta hálfleiksins en það lagaðist aðeins þegar við fórum úr þriggja manna vörn í fjögurra manna vörn. Það skipti í raun ekki máli hver leikaðferðin var, hver taktíkin var eða hvert uppleggið var, ef þú ert alltaf skrefinu á eftir þá er aldrei von á góðu og við vorum skrefinu á eftir í fyrri hálfleik."
Blikar eru aðeins með fjögur stig af 12 mögulegum eftir fyrstu fjóra leiki tímabilsins, þetta var kannski ekki byrjunin sem Blikar vonuðumst eftir?
„Nei auðvitað viljum við vinna alla leiki sem við tökum þátt í en hins vegar er það bara þannig að þú færð einhvern veginn það sem þú átt skilið. Við erum með fjögur stig og spilamennskan hefur verið þess eðlis, hún hefur ekki verið stöðug þannig að við verðum bara að bera virðingu fyrir þessari stigasöfnun og gera vonandi betur í framhaldinu."
Viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.
Athugasemdir