banner
   mán 16. maí 2022 08:40
Ívan Guðjón Baldursson
West Ham kvaddi Mark Noble í gær
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images

West Ham United kvaddi fyrirliðann Mark Noble í gær þegar hann spilaði sinn síðasta heimaleik fyrir félagið.


Noble kom inn á 77. mínútu í stöðunni 2-2 gegn Manchester City og var tilfinningaríkur að leikslokum.

„Ég reyndi að halda andliti en tilfinningarnar báru mig ofurliði. Þetta var stórkostleg kveðja frá stuðningsmönnum á mögnuðu lokatímabili mínu hérna," sagði Noble.

„Ég hefði ekki getað beðið um betri kveðju. Það er mjög sjaldgæft í þessum fótboltaheimi að maður fái að kveðja eftir eigin höfði. Ég er þakklátur fyrir það.

„Þetta er rétti tíminn til að leggja skóna á hilluna og verja tíma með fjölskyldunni. Ég mun alltaf tengjast West Ham og ég veit að stjórnin vill halda mér innan félagsins en ég ætla fyrst að taka mér frí og hugsa svo um framtíðina.

„Ég mun liggja í sólbaði á næstu leiktíð á meðan Craig Dawson þarf að dekka Haaland."

Noble lék fyrir West Ham í 18 ár og fór aðeins tvisvar sinnum burt frá félaginu á lánssamningum. Hann á 549 leiki að baki fyrir Hamrana en á tíma sínum hjá félaginu fékk hann aldrei tækifærið með A-landsliði Englendinga þrátt fyrir að hafa verið byrjunarliðsmaður í unglingalandsliðunum.


Athugasemdir
banner
banner