Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   fim 16. júní 2022 19:39
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Krefjandi ár að baki í Harvard - „Erfiðar aðstæður að vera í"
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Er á leið á sitt fyrsta stórmót.
Er á leið á sitt fyrsta stórmót.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elísa Viðarsdóttir.
Elísa Viðarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Áslaug Munda í leik með Breiðabliki.
Áslaug Munda í leik með Breiðabliki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Heimavöllurinn
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir er á leið á sitt fyrsta stórmót með íslenska landsliðinu.

Áslaug Munda, sem er nýorðin 21 árs gömul, ​​hefur komið sterk inn í lið Breiðabliks að undanförnu og hefur tvisvar verið valin í lið umferðarinnar hér á Fótbolta.net frá því hún kom heim úr Harvard háskólanum.

Hún var í viðtali á Heimavellinum þar sem hún lýsti því hvernig það er að vera í Harvard, sem er virtasti háskóli í heimi.

„Það er ekki einfalt, ekki auðvelt. Þetta er búið að vera mjög reynslumikill tími sem ég er búin að upplifa og virkilega gaman. Þú finnur að þú ert að læra af og með þeim bestu,” segir Áslaug Munda.

„Fyrsta árið var frekar opið en ég er að stefna á það að fara núna í taugavísindi. Það er hægt að gera frekar mikið með þá gráðu.”

Það var mikil umræða um það síðasta sumar að þessi efnilegi leikmaður væri að fara í atvinnumennsku. Kom það aldrei til greina?

„Jú, það kom vel til greina. Þetta var ekki auðveld ákvörðun og ég var mjög lengi að taka, en ég ákvað að slá til. Ég hugsa að ég hefði séð eftir því ef ég hefði ekki prófað.”

Hún spilar fótbolta með skólaliðinu meðfram náminu. „Þetta er sterkur fótbolti. Ég held að allar stelpurnar í liðinu séu landsliðsstelpur og eiga yngri landsleiki. Þetta er mjög fjölbreyttur hópur og kemur hvaðanæva að úr heiminum. Við vorum tólfta besta liðið í Bandaríkjunum af 500 eða eitthvað. Við stóðum okkur mjög vel. Við erum að endurnýja hópinn og byggja ofan á árangurinn.”

Það er annar Íslendingur í liðinu, Hildur Þóra Hákonardóttir. „Hildur er frábær. Hún er yndisleg manneskja og frábær námsmaður, algjör vasareiknir. Hún er að læra verkfræði. Ef ykkur vantar að leysa stærðfræðidæmi, þá hringið þið í Hildi Þóru.”

„Mér finnst gaman að hlusta á þetta,” sagði landsliðskonan Elísa Viðarsdóttir, sem var einnig með í þættinum. „Ég held að flestar stelpurnar í landsliðinu hafi sömu sögu að segja, að vísu ekki úr Harvard. Það eru flestallar að mennta sig samhliða fótboltanum. Þetta eru afreksíþróttakonur í fótbolta. Þær flestar að stefna hátt, ekki bara í íþróttum.”

„Það er svo mikið af fyrirmyndum þarna sem við eigum að lyfta upp. Tölum um þetta. Áslaug Munda er í Harvard, þetta er ótrúlegt.”

„Maður dáist að þessu,” sagði Mist Rúnarsdóttir sem stýrði þættinum.

Ekki dans á rósum
Að vera í Harvard er gríðarlega erfitt, ekki bara dans á rósum. Áslaug Munda fékk höfuðhögg og var frá keppni í dágóðan tíma. Hún fékk ekki mikinn tíma til að hvíla sig því námið er svo krefjandi.

„Skólinn byrjar 1. september. Ég spila leik 2. september og fæ höfuðhögg. Ég var kýld í andlitið af markverði.”

„Þá byrjar erfiður tími. Þetta voru erfiðar aðstæður að vera í, að þurfa að mæta í tíma og vera með höfuðverk allan daginn. Það eru alltaf verkefnaskil og þú getur ekki tekið þér pásu. Ef þú tekur þér einn dag í frí þá ertu komin viku eftir á. Það er erfitt. Það dró aðeins af bataferlinu, ég var ekki í fótbolta en ég var samt í 100 prósent námi.”

„Ég endaði á því að draga mig úr einum áfanga til að fá smá tíma. Það hjápaði.”

Áslaug Munda byrjaði aftur að spila fótbolta í mars á þessu ári. „Ég var bara búin að vera í snertilausum bolta. Ég var alltaf að gera mitt besta til að vera í mínu formi. Sjö mánuðir án fótbolta.”

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, segist hafa átt góðan fund með þjálfaranum í Harvard áður en hann valdi landsliðshópinn sem fer á EM. Þar mun þessi öflugi leikmaður - og námsmaður - spila á sínu fyrsta stórmóti í næsta mánuði.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.
Heimavöllurinn: Beint úr Bestu á EM í Englandi
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner