Tveir miðverðir orðaðir við Liverpool - Graham Potter næsti landsliðsþjálfari Englands? - Arsenal líklegast til að fá Merino - Man City vill fá...
   sun 16. júní 2024 18:40
Ívan Guðjón Baldursson
Harry Kane: Aldrei verið í betri stöðu til að sigra EM
Mynd: EPA
Harry Kane er fyrirliði enska landsliðsins og er hann spenntur fyrir fyrsta leik liðsins á Evrópumótinu í Þýskalandi.

England spilar við Serbíu í kvöld og er stjörnum prýtt lið Englendinga bjartsýnt fyrir mót, þrátt fyrir að hafa tapað síðasta æfingaleiknum sínum gegn Íslandi.

England tapaði úrslitaleiknum á síðasta Evrópumóti og telur Kane liðið hafa allt sem þarf til þess að sigra í ár.

„Við viljum vinna stórmót með enska landsliðinu. Við viljum komast í sögubækurnar. Við viljum ekki vera kynslóðin sem vann næstum því stórmót. Við verðum að gefa okkur alla í þetta verkefni," sagði Kane fyrir leikinn gegn Serbíu.

„Það er bara eitt markmið fyrir þetta mót og það er að sigra. Við munum ekki vera sáttir með neitt annað en sigur. Við höfum verið að taka mikilvæg skref á undanförnum árum og núna erum við með fullkominn leikmannahóp. Við höfum aldrei verið í betri stöðu til að sigra Evrópumótið."

Kane er í byrjunarliðinu gegn Serbíu í kvöld og er þetta hans 23. leikur á stórmóti og 12. leikurinn hans á EM, sem eru bæði ný met innan herbúða enska landsliðsins. Kane býr því yfir gífurlegri reynslu frá stórmótum og er staðráðinn í að sigra loksins í ár.

„Ég er stoltur af því að spila fyrir enska landsliðið. Það er ótrúlega erfitt að spila fyrir þetta landslið og það er ennþá erfiðara að vera valinn til að koma með á stórmót. Ég er mjög stoltur af því að vera partur af þessum hóp."
Athugasemdir
banner
banner