Zirkzee, Yoro og Branthwaite orðaðir við Man Utd - Arsenal mun framkvæma læknisfræðilegt mat á Neto
banner
   sun 16. júní 2024 19:02
Ívan Guðjón Baldursson
Probierz: Höfum ekki sagt okkar síðasta
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Michal Probierz svaraði spurningum eftir 2-1 tap Póllands gegn Hollandi í fyrstu umferð Evrópumótsins í Þýskalandi.

Pólverjar sýndu flotta spilamennsku gegn sterku liði Hollendinga og var staðan jöfn, 1-1, allt þar til á lokakaflanum þegar Wout Weghorst kom inn af bekknum og gerði sigurmarkið.

„Eftir leikinn sagði ég strákunum að við getum gengið stoltir af velli. Við erum á réttri braut. Við áttum að ná í stig hérna og getum sjálfum okkur um kennt, við vorum ekki nógu klókir á lokakaflanum. Frammistaðan var samt góð," sagði Probierz á fréttamannafundi eftir tapið, en Pólverjar eru einnig með Austurríki og Frakklandi í afar erfiðum riðli.

„Við munum ekki gefast upp, við höfum ekki sagt okkar síðasta á þessu móti. Við munum gera allt í okkar valdi til að sigra tvo síðustu leikina okkar. Við höfum mikla trú á hæfileikum okkar. Svo erum við að fá Robert Lewandowski og Pawel Dawidowicz aftur úr meiðslum, þeir geta tekið þátt í næsta leik.

„Við sýndum það í dag að við getum spilað góðan fótbolta. Við fengum mikið af færum og á öðrum degi hefðum við getað staðið uppi sem sigurvegarar."


Pólland mætir Austurríki á föstudaginn og spilar svo við ógnarsterkt lið Frakklands í lokaumferðinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner