De Bruyne og Grealish til Napoli? - Rodrygo og Frimpong til Liverpool - Al Hilal vill tvo frá Liverpool - Tveir orðaðir frá Newcastle
   lau 16. september 2023 11:40
Ívan Guðjón Baldursson
Afsögn Rubiales ekki nóg - Neita að spila
Kvenaboltinn
Mynd: EPA

Það er mikil ólga að fara um spænskan kvennafótbolta um þessar mundir eftir að Luis Rubiales sagði af sér sem forseti knattspyrnusambandsins þar í landi eftir mikla pressu úr öllum áttum.


Rubiales gerði slæm mistök og er núna kominn í nálgunarbann frá landsliðskonunni Jennifer Hermoso eftir að hafa smellt rembingskossi á munn hennar í kjölfarið af sigri Spánverja í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í Eyjaálfu.

Spænsku landsliðskonurnar neituðu að spila fyrir landsliðið meðan Rubiales var við völd og sagði hann af sér á dögunum, en þær neita enn að spila. Þær vilja sjá fleiri breytingar á knattspyrnusambandinu sínu.

Í heildina eru þær 39 talsins atvinnukonurnar í fótbolta sem neita að spila fyrir spænska landsliðið, þar af eru 21 af 23 kvenna hópnum sem stóð uppi sem sigurvegari á HM.

„Við teljum að þær breytingar sem hafa átt sér stað innan knattspyrnusambandsins séu ekki nægar til að okkur leikmönnum geti liðið eins og við séum í öruggu starfsumhverfi, þar sem konum er sýnd virðing og þar sem er lagður metnaður í kvennafótbolta," segir meðal annars í yfirlýsingu frá spænsku fótboltakonunum.

„Spænska landsliðið er skipað atvinnukonum og það fyllir hjörtu okkar af stolti að berjast um titla fyrir land okkar og þjóð. Við teljum að nú sé kominn réttur tími til að berjast fyrir okkar stöðu, við þurfum að sýna heiminum að svona aðstæður eins og sköpuðust eftir úrslitaleik HM séu óboðlegar. Það þarf að breyta kerfinu svo að næstu kynslóðir eftir okkur geti upplifað að iðka sanngjarnari íþrótt."

Spánn á leiki við Svíþjóð og Sviss í landsleikjahlé kvennaboltans og átti að tilkynna leikmannahópinn á fréttamannafundi í gær. Þeim fréttamannafundi var frestað þar sem óljóst er hvort spænska landsliðið muni taka þátt í leikjunum eða gefa þá.


Athugasemdir
banner
banner