Luis Enrique, þjálfari Paris Saint-Germain, var ánægður með frammistöðu liðsins í 3-2 tapinu gegn Nice í gær en þetta var fyrsta tap tímabilsins.
PSG hafði unnið tvo og gert tvö jafntefli á leiktíðinni áður en það beið lægri hlut fyrir Nice.
Kylian Mbappe skoraði tvö en það var ekki nóg því Terem Moffi átti sinn besta leik fyrir Nice, skoraði tvö og hjálpaði liðinu að taka öll stigin.
Enrique var ánægður með margt í leik PSG og sagðist ánægðari með tapið en sigurinn á Lyon fyrir landsleikjahlé.
„Ég er ánægðari með tapið gegn Nice en þegar við unnum Lyon. Ég er sáttur með að mínir leikmenn hafi reynt fram að síðustu mínútu og var hrifinn af viðhorfi allra leikmanna liðsins. Þetta er rétta leiðin,“ sagði Enrique á blaðamannafundi eftir leik.
PSG er með aðeins átta stig úr fyrstu fimm leikjunum en þetta er versta byrjun liðsins frá því QSI eignaðist félagið fyrir tólf árum.
Athugasemdir