Norski fyrirliðinn Martin Ödegaard er við það að skrifa undir nýjan samning við enska úrvalsdeildarfélagið Arsenal.
Á dögunum greindu enskir miðlar frá því að Arsenal væri í viðræðum við Ödegaard um nýjan samning en þær viðræður eru á lokastigi og má búast við tilkynningu fljótlega.
Arsenal framlengdi við þá Bukayo Saka og Aaron Ramsdale í sumar en það hyggst einnig ætla að gera nýjan samning við enska varnarmanninn Ben White.
Daily Mail segir að Ödegaard framlengi við félagið á næstu dögum en Norðmaðurinn vildi lítið segja þegar hann var í verkefni með norska landsliðinu á dögunum.
„Það er ekki mikið sem ég get sagt, fyrir utan það að ég er mjög ánægður hjá Arsenal og vonast til að vera þar til lengri tíma, en annars hef ég ekkert annað að segja akkúrat núna,“ sagði Ödegaard.
Norðmaðurinn var gerður að fyrirliða Arsenal fyrir síðustu leiktíð og hefur verið með allra bestu leikmönnum liðsins síðan hann kom frá Real Madrid fyrir tveimur og hálfu ári síðan.
Athugasemdir