
Það eru leikir í Bestu deild kvenna í dag og á morgun. Í dag klárast neðri helmingur deildarinnar og þá kemur í ljós hvaða lið fellur með Selfossi. Á morgun eru svo þrír leikir í efri helmingi deildarinnar en baráttan um annað sæti deildarinnar er gríðarlega spennandi.
Við fengum Elízu Gígju Ómarsdóttur, leikmann Víkings og fréttaritara Fótbolta.net, til að spá í leikina sem framundan eru.
Við fengum Elízu Gígju Ómarsdóttur, leikmann Víkings og fréttaritara Fótbolta.net, til að spá í leikina sem framundan eru.
Tindastóll 2 - 1 ÍBV (14:00 í dag)
Stólarnir hafa verið besta lið verstu liðanna í sumar og klára þetta á heimavelli. Þær eru búnar að vinna báða leikina gegn Eyjakonum í sumar og halda því áfram. Murielle gerir það sem hún gerir best og setur eitt og Aldís María setur hitt. Olga klórar í bakkann fyrir þær hvít klæddu en það verður of lítið of seint.
Keflavík 1 - 0 Selfoss (14:00 í dag)
Þetta er úrslitaleikur fyrir Keflvíkinga á meðan Selfyssingar hafa ekkert nema stoltið til að spila fyrir. Selfyssingum hefur ekki tekist að sækja þrjá punkta á útivelli í sumar og gera það ekki í þessum leik. Þetta eru þau lið sem hafa skorað minnst í sumar og því viðbúið að þetta verði engin flugeldasýning.
Valur 3 - 1 FH (14:00 á morgun)
Eftir nokkuð slaka frammistöðu Vals á móti Stjörnunni mæta þær aftur í gír og sýna af hverju þær eru besta lið landsins. Amanda leikur listir sínar eins og hún er búin að gera síðan hún kom, skorar eitt og leggur upp á Bryndísi, Þórdís setur svo eitt út langskoti. FH uppsker eitt mark úr hápressunni sem þær eru búnar að fullkomna en það dugir ekki til.
Breiðablik 0 - 2 Stjarnan (14:00 á morgun)
Heitasta lið landsins um þessar mundir mætir því liði sem hefur verið að brasa hvað mest. Þetta er risastór leikur í baráttunni um annað sætið og alveg hægt að færa rök fyrir því að þetta sé síðasti séns fyrir Blika að rífa sig í gang. Stjörnuvélin heldur áfram að malla í þessum leik og þær setja tvö. Andrea Mist heldur áfram að skora og Sædís Rún setur screamer.
Þróttur R. 1 - 1 Þór/KA (14:00 á morgun)
Þróttarar koma inn í þennan leik eftir ekkert sérstaka frammistöðu í síðasta leik þrátt fyrir sigur. Þór/KA hins vegar spiluðu vel á móti Blikum og unnu verðskuldað. Bæði lið koma vel gíruð í þennan leik og þetta verður mikil barátta þar sem bæði lið setja eitt en hvorugt lið finnur sigurmarkið. Það var nóg af drama þegar þessi lið mættust í Laugardalnum fyrr í sumar og ég óska þess að spá mín reynist röng og það verði endurtekið
Stöðutaflan

L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 |
Stöðutaflan

L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 |
Athugasemdir