Enski miðjumaðurinn Kalvin Phillips hefur ekki fengið margar mínútur síðan hann kom frá Leeds United á síðasta ári en hann hafnaði möguleikanum á að fara á lán undir lok gluggans.
Fyrst þegar Phillips kom til Man City sagði Pep Guardiola. stjóri félagsins, að hann væri heldur þungur en Phillips hefur æft eins og skepna síðan.
Hann spilaði aðeins 593 mínútur í 21 leik á síðasta tímabili og hefur þá fengið aðeins sex mínútur á þessari leiktíð.
Man City bauð honum þann möguleika að fara í annað félag á láni til að fá fleiri mínútur í lappirnar en hann hafði ekki áhuga á því.
„Við töluðum við hann og félagið um að leyfa honum að fara á láni því hann var ekki að fá margar mínútur en hann vildi vera áfram og er meira en velkominn hér. Góðir gaurar sem sætta sig við allt og ákveða að vera áfram eru alltaf velkomnir. Þegar glugginn lokar þá eru allir leikmennirnir hér partur af fjölskyldu og hjálpa,“ sagði Guardiola.
Phillips kom við sögu í 3-1 sigri Englands á Skotlandi á dögunum en það kom mörgum á óvart að hann hafi verið valinn í landsliðshópinn, sérstaklega þar sem hann hefur ekki verið í stóru hlutverki hjá Guardiola, en Spánverjinn var ánægður með hans frammistöðu í þeim leik.
„Ég vil segja ykkur hvað ég er ánægður með leikinn sem hann spilaði því hann er stórkostlegur náungi og ég elska að vinna með svona fólki eins og ég haf margoft sagt.“
„Auðvitað hefur hann ekki fengið margar mínútur til þessa og ég veit ekki hvað mun gerast en það er mikilvægt fyrir hann og mig að spila svona vel. Hann getur bætt sig því dýnamíkin sem hann kom úr var algjör andstæða. Hann er áfram hjá okkur og það er eitthvað um meiðsli og því mikilvægt að hann sé klár,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir